Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að fara yfir áhrifin sem spáð var að lögfesting mannréttindasáttmálans á Íslandi myndi hafa. Ég held áfram, en ég var áðan að tala um að þeirri skoðun hefði vaxið fylgi að lögfesta bæri mannréttindasáttmálann, með leyfi forseta:

„Þessari skoðun hafði verið hreyft í lögfræðilegri umfjöllun hér áður en misræmisins fór að gæta. Á Alþingi hefur einnig verið vakið máls á því oftar en einu sinni á undanförnum árum og áratugum að huga bæri að lögfestingu mannréttindasáttmálans.

Helstu röksemdir fyrir því að lögfesta nú ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu eru þessar:

Réttindi einstaklinga fá aukna vernd.“

Ég endurtek þetta með tilliti til þess sem ég sagði áður: Þetta á ekki bara við um íslenska ríkisborgara heldur alla þá sem eru á yfirráðasvæði Íslands og í rauninni allra þeirra ríkja sem hafa fullgilt og lögfest mannréttindasáttmálann.

Og svo áfram, með leyfi forseta: „Réttaröryggi eykst.“

Hérna glímum við við það vandamál að í þessu frumvarpi, og í raun í núverandi framkvæmd líka en þetta frumvarp gerir það verra, er réttur fólks til þess að leita niðurstöðu um mögulega ranga ákvörðun stjórnvalda skertur. Við vitum alveg að stjórnvöld eru ekki fullkomin, dómstólar eru ekki fullkomnir. Þeir reyna að sjálfsögðu eins og þeir geta að vera það og komast kannski einna næst því af öllu því sem við höfum í kerfinu. Mjög nýlega fengum við alveg sótsvarta skýrslu um fiskeldið. Þar er stjórnsýslan að bregðast í eftirliti og þingið að bregðast í lagasetningu. Það bregst allt frá A–Ö. Eigum við bara að ganga út frá því að allt sé 100% rétt sem stjórnsýslan gerir? Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu er það ekki þannig. Þess vegna skiptir svo miklu máli að fólk hafi rétt á að komast alla leið í gegnum dómskerfið til að fá réttustu niðurstöðuna. En það er einmitt verið að takmarka það dálítið í þessu frumvarpi. Það er takmarkað eins og er á þann hátt að fólk hefur vissulega rétt á því að kæra til dómstóla niðurstöðu kærunefndar útlendingamála en af praktískum ástæðum getur fólk ekki framfylgt þeim rétti sínum, ekki ef það er einhvers staðar á götunni í Grikklandi og hvað þá í einhverjum öðrum löndum þar sem aðgengi er síðra. Það kemur einfaldlega í veg fyrir að það sé hægt að komast að því hvort stjórnvöld séu að skila réttum niðurstöðum með tilliti til þeirra réttinda sem allir á yfirráðasvæði Íslands eiga að njóta.

Ég tek undir það sem hv. þm Lenya Rún Taha Karim sagði hérna áðan og sem ég sé í samfélagsumræðunni að margir hafa áhyggjur af í þessum málum. Þetta er dýr málaflokkur, mannréttindi eru dýr. Þessi mannréttindi þurfa ekki að vera svona dýr en það er ekkert í þessu frumvarpi sem sýnir okkur að það sé verið að gera meðferð þessara mála á einhvern hátt skilvirkari og þar með ódýrari, nema kannski mögulega á kostnað mannréttinda sem við megum að sjálfsögðu aldrei gera. En ekki einu sinni þar sé ég möguleikann á skilvirkni, ekki einu sinni þar. Ég sé hins vegar ýmsar viðbætur, undanþágur og ýmislegt, sem eru kæranlegar og það býr bara til aukaálag í kerfinu að glíma við synjanir á hinum ýmsu atriðum í ferlinu sem undanþágur hafa í för með sér. Þetta er alveg eins og að spila tölvuleik sem er með fullt af göllum. Ef þú reynir að bæta gallann býrðu jafnvel til fullt af fleiri göllum, í staðinn fyrir að taka burt ónýtan kóða, t.d. lög um almannatryggingar, og endurgera hann. (Forseti hringir.) Það er búið að stagbæta þetta svo oft (Forseti hringir.) að hliðarverkanirnar af öllum plástrunum hafa áhrif hver á aðra og enginn veit í rauninni hver útkoman verður (Forseti hringir.) þegar á að gera enn eina breytinguna. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.