Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er hérna að fara yfir innleiðingu mannréttindasáttmála Evrópu í íslensk lög og það er verið að fjalla um hvað það er sem Ísland myndi græða á því, hvað það væri gott fyrir íslenska löggjöf að fá mannréttindasáttmála Evrópu lögfestan. Þar er talað um réttindi einstaklinga, sem fá aukna vernd, og að réttaröryggi aukist. Ég held áfram með þessa yfirferð, með leyfi forseta:

„Í sumum greinum mannréttindasáttmálans er að finna ítarlegri ákvæði en í íslenskri löggjöf um einstaka þætti mannréttinda. Þótt mörg ákvæði sáttmálans eigi sér hliðstæður í settum lögum hér á landi, þar á meðal í stjórnarskránni, gildir þetta ekki um öll þau réttindi sem sáttmálinn nær til. Sem dæmi má benda á 10. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem samkvæmt orðalagi sínu tekur til tjáningarfrelsis almennt meðan 72. gr. stjórnarskrárinnar nær einvörðungu til prentfrelsis. Samkvæmt þessu yrði lögtaka mannréttindasáttmálans gagngert til þess að fylla upp í það sem kalla mætti eyður í íslenskri löggjöf.

Eftir lögfestingu getur einstaklingur borið ákvæði sáttmálans fyrir sig sem beina réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum en ekki aðeins eins og nú er sem leiðbeiningargögn við lögskýringar.

Lögfesting auðveldar dómsúrlausnir og ákvarðanir stjórnvalda um mannréttindamál.

Eftir lögfestingu geta einstaklingar fengið dómsúrlausn hér á landi um ýmis þau kæruefni sem ella hefðu þurft að fara til stofnananna í Strassborg. Ef úrlausn fæst samt ekki hér á landi hefur einstaklingur á sama hátt rétt til að kæra til mannréttindanefndarinnar.

Lögfestingin myndi vekja jafnt almenning og þá sem starfa að rekstri og úrlausn mála fyrir dómstólum og í stjórnsýslu og að undirbúningi að lagasetningu til frekari vitundar um mannréttindi og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Telja má hættu á að of oft geti nauðsynlegt tillit til mannréttindareglna horfið í skuggann í daglegum störfum.“

Virðulegur forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt með tilliti til málsins sem við erum að fjalla um núna að lesa þetta aftur, með leyfi forseta: „Lögfestingin myndi vekja jafnt almenning og þá sem starfa að rekstri og úrlausn mála fyrir dómstólum og í stjórnsýslu og að undirbúningi að lagasetningu til frekari vitundar um mannréttindi og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki.“

Þetta er nákvæmlega það sem við erum að glíma við núna í þessu frumvarpi sem er verið að fjalla um, frumvarpi um útlendinga, nákvæmlega þetta. Það er alveg ótrúlegt miðað við allar umsagnirnar sem við höfum fengið, sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur fengið, sem eru hérna til umræðu í 2. umr. þessa frumvarps, miðað við innihald allra þeirra umsagna og athugasemda þeirra hvað varðar mannréttindasáttmála Evrópu og ákvæði stjórnarskrárinnar, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, að frumvarpið gangi á réttindi fólks með tilliti til þessara skuldbindinga og til þessara laga, til stjórnarskrárinnar, að það hafi ekki verið gert betur en raun ber vitni, og raunar svo illa að í frumvarpinu segir beinlínis að þrátt fyrir augljós áhrif á mannréttindi hafi ekki verið tilefni til að skoða áhrif þess með tilliti til mannréttindaákvæða stjórnarskrár. Það er ótrúlegt. Miðað við hversu langt við eigum að vera komin þá bara vonar maður að það hafi ekki verið viljandi. Þetta er svo mikil yfirsjón að það er mjög erfitt (Forseti hringir.) að segja að það hafi verið óvart. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.