Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að renna yfir greinar frumvarpsins og athugasemdir í umsögnum um hverja grein til þess að ná ákveðnu samhengi þar á milli. Nú hefur verið umfjöllun um umsagnir í heild sinni en þannig næst kannski ekki samhengi við hverja grein fyrir sig því að hver umsagnaraðili fjallar um margar greinar, svo er farið í næstu umsögn sem fjallar um margar greinar og maður þarf að púsla þessu aðeins saman stundum til að ná samhengi milli hverrar greinar og umsagnaraðila. Hvað varðar 1. gr. er það bara Solaris sem gerir athugasemdir, sem sagt í þeirri yfirferð yfir umsagnir sem ég ætla að fara í, með leyfi forseta:

„1. gr.

Í b-lið 1. gr. er lögð til sú breyting að eftirfarandi texta verði bætt við 25. tölul. 3. gr. laganna, að með umsækjanda um alþjóðlega vernd sé ekki átt við útlending sem fengið hefur endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi. Með þessu ákvæði er verið að leggja grunninn að því að svipta megi umsækjendur um alþjóðlega vernd grundvallarþjónustu eftir að þeim hafi verið birt lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd.

Það ber að fordæma þessa tilraun íslenskra stjórnvalda til þess að endurskilgreina hverjir eru umsækjendur um alþjóðlega vernd í þeim eina tilgangi að grafa undan stöðu fólks og svipta það grunnþjónustu.“

Þetta er einföld umsögn í rauninni um 1. gr. en 1. gr. fjallar um ákveðna orðskýringu um endurtekna umsókn og svoleiðis og tengist 2. gr., þ.e. 8. gr., minnir mig, þar sem er líka fjallað um tímafresti, hvenær viðkomandi er umsækjandi um alþjóðlega vernd og hvenær ekki.

Alla vega, tökum þetta í samhengi. Ég næ nú ekki að fara yfir allar umsagnirnar um 2. gr. af því að þær eru þó nokkrar en ég ætla að reyna að fara yfir nokkrar til að byrja með. Rauði krossinn á Íslandi fjallar um 2. gr., sem er sjálfkrafa kæra. Rauði krossinn leggst gegn þessu af tveimur ástæðum: Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru birtar umsækjendum á íslensku, yfirleitt 10–20 bls., og ekki þýddar á önnur tungumál. Ákvörðunin er send talsmanni umsækjanda sem þarf í kjölfarið að bóka fund með viðkomandi og túlki sem er oftast ekki hægt að gera samdægurs. Vanræksla Útlendingastofnunar á rannsóknarskyldu — þ.e. stofnunin sýnir ekki frumkvæði við að kanna hvort einstaklingur kunni að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Reglulega kemur það upp að umsækjendur hafa ekki verið komnir með tíma í fyrstu heilbrigðisskoðun þegar þeir mæta til viðtals hjá Útlendingastofnun en í slíkri skoðun er skimað fyrir líkamlegum og andlegum veikindum. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að bíða með ákvarðanatöku í málinu þar til gögn hafa orðið til og borist frá heilbrigðisyfirvöldum. Upplýsingar úr sjúkraskrá gefa oft tilefni til frekari rannsókna og greiningar á andlegum eða líkamlegum veikindum umsækjenda með öflun ítarlegri vottorða. Töluvert ber á því að Útlendingastofnun fallist ekki á að veita umsækjendum frest til að afla slíkra gagna sjálfir. Enn fremur eru umsækjendur ítrekað látnir bera hallann af því ef gögn skortir sem varpa ljósi á andlega eða líkamlega heilsu viðkomandi. Umsækjendur hafa þar af leiðandi þurft að nýta kærufrestinn til að bæta upp fyrir vanrækslu stjórnvalda á rannsóknarskyldu sinni svo öll nauðsynleg gögn geti legið fyrir og talsmaður geti fjallað sérstaklega um þau í greinargerð á kærustigi. Í Noregi og Svíþjóð eru kærufrestir í sambærilegum málum 21 dagur frá birtingu ákvörðunar.

Það eru síðan fleiri umsagnir, frá Íslandsdeild Amnesty International, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, og fer ég yfir þær í næstu ræðu. Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.