Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið að fara yfir athugasemdir umsagnaraðila um hverja grein frumvarpsins en ég ætla aðeins að pása það akkúrat núna því að ég held að við þurfum að ræða hvernig þingið virkar í þessu. Þetta er dálítið áhugavert og fólk sem er hér utan veggja áttar sig kannski ekki alveg á því hvernig þingið fúnkerar, hvernig þingið virkar. Fjármálaráðherra var eitthvað æpa um málþóf hérna fyrr í dag og að þinginu væri haldið í gíslingu og eitthvað svoleiðis. Það virkar alveg í báðar áttir. Við verðum að átta okkur á því að það er meiri hlutinn sem er með dagskrárvaldið og ákveður hvaða mál fara hvenær á dagskrá. Við Píratar, ég alla vega vinn út frá grunnstefnu Pírata, leggjum áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. Við vinnum út frá því sem mannréttindasáttmálinn kveður á um, að við beitum okkur fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.

Umsagnaraðilar benda á ákvæði í frumvarpinu sem ganga á ákveðin réttindi, eins og sjálfkrafa kæra og þjónustuskerðing og svo eru önnur ákvæði þarna sem við erum búin að fara yfir. Þegar svoleiðis ábendingar koma er það skylda stjórnvalda að rökstyðja að þetta gangi ekki gegn mannréttindasáttmála eða stjórnarskrá. Þannig að eftir að umsagnaraðilar koma — og það er stundum rosalega erfitt að fá umsagnaraðila til að vera skýra í máli sínu, til að taka afstöðu í eina eða aðra áttina, ekki orða hlutina loðið. Það er rosalega algengt að margir tali ekki alveg skýrt og séu ekki að túlka of ákveðið, en þetta þarf að vera skýrt. Það er verulega ýjað að því að þarna sé um brot á mannréttindum að ræða, veruleg réttindaskerðing er orðalagið, að gengið sé á rétt barna sem eiga að hafa sjálfstæðan rétt til efnismeðferðar, þannig er það orðað, og þess vegna þurfa stjórnvöld að rökstyðja að svo sé ekki eða að um málefnalegar skerðingar sé að ræða. En þetta mat er ekki til. Það er ekki til í umsögnum ráðuneytisins. Umsagnaraðilar benda á þetta, en það er ekki rökstutt hvernig það væri málefnalegt að skerða þessi mannréttindi og þar af leiðandi réttlætanlegt. Þannig að við biðjum um greiningu á því. Persónulega finnst mér það rosalega lítil og sjálfsögð krafa eftir að allir umsagnaraðilar hafa ýjað að því þótt þeir vilji ekki stíga fast niður í eina eða aðra áttina, það sé bara dómstóla að kveða á um það og alls konar svoleiðis. En við getum alveg fengið álit. Það er hægt að fá svoleiðis álit eða leitast eftir því. Það kostar ákveðið, það kostar ákveðinn tíma o.s.frv., en svarið við því hefur bara verið: Nei.

Mér finnst þetta áhugavert af því að eitt af markmiðum þessa frumvarps er skilvirkni. En þegar maður reynir að spyrja: Hver er skilvirknin, gagnvart hvaða hópum er það? Hversu margir eru þar á bak við? þá er bara sagt: Það er breytilegt eftir árum. Á einhverjum tíma voru það náttúrlega bersýnilega tilhæfulausar umsóknir, sem er búið að girða fyrir. Núna er það Venesúela, það er annar hópur. En það er ekkert sagt sem er haldbært, að þetta sé skilvirknin og hvar hún sé í kerfinu og hvort hún sé á kostnað mannréttinda eða ekki. Við erum ásökuð um halda þinginu í gíslingu þegar það er meiri hlutinn sem setur þetta mál á dagskrá ofan í þessar ábendingar um brot á mannréttindum. Það er hægt að setja öll önnur mál á dagskrá. (Forseti hringir.) Ég veit að aðrir flokkar líta á það sem svo að þegar eitthvert mál er seinna á dagskrá muni það halda öðrum málum í gíslingu o.s.frv., (Forseti hringir.) en ég veit ekki til þess að það sé hægt að ásaka okkur um það, ekki enn þá, það hefur ekki reynt á það alla vega.