Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:15]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég var í miðjum klíðum að fjalla um útdrátt úr umsögnum frá Rauða krossinum á Íslandi þar sem vikið er að vanrækslu Útlendingastofnunar á rannsóknarskyldu. Bent er á dæmi þess að einstaklingar séu kallaðir í fyrsta viðtal áður en raunverulega hafi verið skimað fyrir líkamlegum og andlegum veikindum og er þá eftir atvikum ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun um þá hluti. Þar með er nauðsynlegt að bíða með ákvarðanatöku þar til gögn hafa borist. Þetta er borðleggjandi athugasemd og eitthvað sem ljóst er að taka hefði þurft tillit til. Víkur Rauði krossinn að því að töluvert beri á því að Útlendingastofnun fallist ekki á að veita umsækjendum frest til að afla gagna sjálfir og bendir jafnframt á að umsækjendur séu ítrekað látnir bera hallann af því ef gögn skortir hvað það varðar að varpa ljósi á andlega eða líkamlega heilsu viðkomandi.

Það hlýtur að vera býsna alvarlegt ef ekki er gengið úr skugga um hver réttur einstaklinga raunverulega er á grundvelli heilbrigðis. Aftur, þá erum við búin að undirgangast skuldbindingar samkvæmt alþjóðasáttmálum, mannréttindasáttmálum og hreinlega stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég tel afar alvarlegt ef við ætlum raunverulega ekki að fara eftir þeim skuldbindingum sem felast í því að taka þátt í slíkum samningum.

Það er fleira. Vísað er til þess að umsækjendur hafi þar af leiðandi þurft að nýta kærufrestinn til að bæta upp fyrir vanrækslu stjórnvalda á rannsóknarskyldu sinni svo að öll nauðsynleg gögn geti legið fyrir og talsmaður geti fjallað sérstaklega um þau í greinargerð á kærustigi. Rauði krossinn víkur einnig að því að í Noregi og Svíþjóð sé kærufrestur í sambærilegum málum 21 dagur frá birtingu ákvörðunar og vekur það nokkra furðu að fresturinn sé ekki í það minnsta hinn sami, sérstaklega í ljósi þess mikla fjölda samtaka sem hafa bent á hversu skammur frestur 14 dagar eru og hversu knappur tímaramminn er í ljósi fyrirséðs frests sem Útlendingastofnun gefur sér til að afhenda gögn.

Rauði krossinn bendir einnig á að öflun vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis umsækjenda feli í sér víðtækt inngrip í friðhelgi einkalífs og þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt svo þessi lagasetning standist stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar. Það sé ljóst að þetta þurfi að vera reist á skýrri lagaheimild, stefna að lögmætu markmiði og megi ekki ganga lengra en svo að því lögmæta markmiði sé náð. Mér vitanlega skortir upp á að þessir þættir séu alveg skýrir.

Ég tel einsýnt að ég muni ekki ná að ljúka yfirferð minni í þessari ræðu og því óska ég þess að fara aftur á mælendaskrá.