Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að fara yfir einstakar greinar frumvarpsins og umsagnir tengdar hverri grein. Nú er það 5. gr., sem er voðalega einföld: „Í stað tilvísunarinnar „13. tölul. 3. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna kemur: 14. tölul. 3. gr.“ Það eru engir töfrar í gangi hérna, bara tilvísunarbreytingar, enda gerir enginn athugasemd við þetta og engar umsagnir þar um.

6. gr. er hins vegar dálítið viðamikil, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:

a. 8. mgr. orðast svo:

Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi.“ — þ.e. þegar kærunefnd útlendingamála klárar sinn úrskurð — „Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður. Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus falla réttindin þó niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd. Jafnframt eiga undanþágur 3. málsl. ekki við um þau mál.“

Þetta var a-liður, svo kemur b-liður, að á eftir 8. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi: — og með breytingartillögu meiri hlutans verður það „Lögreglu er heimilt að fresta“, þannig er breytingartillagan —

„Heimilt er að fresta niðurfellingu réttinda skv. 8. mgr. hjá öðrum en ríkisborgurum EES- og EFTA-ríkja og ríkja sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsókn viðkomandi hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða og útlendingur hefur sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið. Við mat á því hvort fresta skuli niðurfellingu réttinda skal m.a. líta til þess hvort útlendingi hafi ekki tekist að fara sjálfviljugur af landi brott innan tilgreinds frests vegna aðstæðna sem ekki eru á ábyrgð hans, svo sem vegna ómöguleika við að afla ferðaskilríkja, fötlunar hans eða vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. Jafnframt er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda í þeim tilvikum þegar fallist hefur verið á frestun réttaráhrifa skv. 6. mgr. 104. gr. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar samkvæmt þessari málsgrein.“

Síðan c-liður: „Á undan orðinu „kröfu“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: um skerðingu og niðurfellingu réttinda.“

Um þessa grein fjalla fjölmargar umsagnir; frá embætti landlæknis, Rauða krossinum á Íslandi, Íslandsdeild Amnesty international, Læknafélaginu, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og prestum innflytjenda og flóttafólks.

Almennt séð með þessa grein, þar sem er verið að fjalla um niðurfellingu réttinda, þá blandast einhvern veginn inn í umræðuna í nefnd og annars staðar að á Íslandi erum við ekki með svona brottrekstrarmiðstöðvar eða lokuð búsetuúrræði fyrir þá sem eru búnir að fá synjun og á að vísa í burtu. Inn í þetta blandast sá vandi að stjórnvöld eru ekki fullkomin og taka ekki alltaf réttar ákvarðanir og svo réttur fólks til að leita réttar síns gagnvart röngum ákvörðunum stjórnvalda og þessar niðurfellingar réttinda eða frestun á niðurfellingum réttinda vegna sanngirnissjónarmiða og ýmislegt svoleiðis, (Forseti hringir.) sem gerir yfirferð yfir þessa grein ansi viðamikla. — Ég ætla að biðja forseta vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.