Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla að reyna í þessari ræðu að klára þennan punkt sem ég er búin að reyna að byrja á núna, held ég, í þremur ræðum. Ég ætla að vinda mér beint að efninu og endurtaka aðeins en reyna að fara sem minnst inn á milli tilvitnana. Ég er að lesa upp úr greinargerð með c-lið 8. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í framkvæmd hefur kærunefnd útlendingamála túlkað orðalagið í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.“

Ég staldra örstutt við. Þarna er ég sem sagt að lesa upp innrömmun kærunefndar útlendingamála á orðalaginu í núgildandi lögum sem segja að ef einstaklingur ber sjálfur ábyrgð á töfum á málsmeðferð þá fái hann ekki efnismeðferð þó að 12 mánuðir séu liðnir, sem hann myndi ella gera. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Sú túlkun er þó ekki afdráttarlaus“ — nú verð ég að biðja ykkur um að hlusta vel — „því í framkvæmd hafa komið upp tilvik þar sem óskýrt orðalag gildandi ákvæðis hefur skapað óvissu og möguleika til misnotkunar, sérstaklega þegar um fjölskyldur eða fólk í hjúskap og sambúð er að ræða. Hefur þannig t.d. almennt verið talið ótækt að láta tafir foreldra eða umsjónarmanna bitna á rétti barna til efnislegrar meðferðar sama hversu augljósar tafir eru á málinu eða hversu einbeittur vilji var til þess að valda þessum töfum. Gildandi lagaákvæði getur því leitt til þess að fjölskyldur með börn á framfæri eða fólk í hjúskap eða sambúð þvingi fram efnislega málsmeðferð einfaldlega með því að tefja mál sitt, svo sem með því að neita að fara í PCR-próf vegna flutnings“ — sem ekki er krafist lengur „by the way“, afsakaðu, forseti — „eða dvelja á ókunnum stað á meðan frestir renna út. Rétt þykir því að skýrt verði kveðið á um í lögum að tafir maka eða sambúðarmaka umsækjanda eða þess sem kemur fram fyrir hans hönd, t.d. foreldra, umsjónarmanna og talsmanna, leiði ekki til þess að umsækjandi hljóti efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins í 2. mgr. 36. gr. laganna. Með umsjónarmanni er átt við tilvik þegar barn kemur hingað til lands í fylgd annarra en foreldra þess, svo sem forsjáraðila, fjölskyldumeðlims eða aðila sem hefur með einum eða öðrum hætti tekið að sér að annast viðkomandi barn. Eins og fram kemur í ákvæðinu skal við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi dvalist á ókunnum stað um tíma, framvísað fölsuðum skjölum eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti ekki sýnt samstarfsvilja við meðferð, úrlausn eða framkvæmd máls. Eðli málsins samkvæmt verður viðkomandi ekki talinn hafa tafið mál ef réttlætanlegar ástæður liggja fyrir töfum, svo sem að hafa ekki mætt í boðað viðtal vegna veikinda eða annarra réttlætanlegra ástæðna. Gera verður þó þá kröfu að viðkomandi upplýsi í tæka tíð um ástæðu fjarveru sinnar. Loks þykir rétt að taka af allan vafa um að teljist umsækjandi á einhverjum tímapunkti hafa tafið mál sitt samkvæmt ákvæðinu eigi hann ekki rétt á efnismeðferð þar sem niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Er það í samræmi við markmið laganna um skilvirka meðferð mála.“

Nú er ég búin að klára tilvitnunina í þessa greinargerð og get þá byrjað að hrauna yfir hana. Það sem er verið að tala um hér og það sem algerlega skín í gegn í þessum orðum er að stjórnvöld líta svo á að þegar einstaklingur hlýtur efnismeðferð vegna tafa á málsmeðferð þá sé hann að ná einhverju fram og stjórnvöld hafi einhvern veginn tapað. Þetta viðhorf liggur að mínu mati að baki öllu því frumvarpi sem við erum að ræða hérna í dag og sá misskilningur og það viðhorf gerir það að verkum að þær leiðir sem er reynt að fara í þessu frumvarpi eru rangar. Þær munu ekki ganga, þær munu ekki auka skilvirkni, þær eru ekki að leysa vandamálið sem við raunverulega stöndum frammi fyrir. Það sem er augljóst hérna er að tilgangur ákvæðisins er beinlínis að tryggja það að börn líði fyrir athafnir annarra, að börn geti ekki grætt efnismeðferð umsóknar sinnar þegar þau hafa verið hérna í mörg ár ef einhver í kringum þau gæti mögulega talist á einhverjum tímapunkti hafa átt þátt í að málsmeðferðin tafðist. Það er ekki neitt slys, það er ekki nein yfirsjón og það er ekki einhver svona óvart afleiðing af þessu ákvæði að það skuli brjóta á réttindum barna, (Forseti hringir.) það er beinlínis tilgangur ákvæðisins.

Ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.