Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er að fjalla um c-lið 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um það sem er kallað í greinargerðinni skýringar á orðalagi ákvæðisins um hvað felist í töfum einstaklings á málsmeðferð sem verður til þess að fólk missir réttindi. Það sem við höfum lagt nokkuð oft áherslu á í þessari umræðu er að með ákvæðum þessa frumvarps sé verið að brjóta á réttindum barna. Ég get alveg skilið að það sé eitthvað sem stjórnvöldum gremst þegar foreldrar eða aðstandendur barna notfæra sér það að börn hafa tiltekin réttindi. Mér er ekki kunnugt um nein slík tilvik og ég hef unnið í þessum bransa í 15 ár en að það gerist í einhverjum tilvikum, ég ætla ekki útiloka að þau séu ekki fyrir hendi. Það er alveg ljóst að það er ekki um kerfisbundinn vanda að ræða. Það er ekki þannig að það sé eitthvert viðvarandi vandamál að foreldrar séu að misnota kerfið og tefja mál með því að hverfa í 12 mánuði með börnin sín til að tefja málsmeðferð. Mér þætti líklegra að það séu til einhver örfá dæmi um að fjölskyldur láti sig hverfa í einhverja örfáa daga á meðan fresturinn er að líða, frá 11,5 mánuðum upp í 12. Fyrir utan það að börn eiga að sjálfsögðu ekki að líða fyrir athafnir annarra þá er ekkert ólíklegt að eitthvað slíkt myndi í fyrsta lagi falla undir þessa framkvæmd kærunefndarinnar og skýringu á þessu ákvæði sem gerir kröfu um að þær tafir sem umsækjandi ber ábyrgð á málsmeðferðinni séu ekki óverulegar og að það sé vandamálið, innan gæsalappa, sem verið sé að bregðast við hér.

Það sem er einkennandi fyrir þessi lög er, eins og einhver lögmaður komst að orði í umræðum um þetta mál fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, að það snýst ekki um skilvirkni. Það snýst um að koma í veg fyrir misnotkun, eins og er stundum orðað í greinargerðinni. Vandamálið við þær forsendur er að misnotkun á kerfinu og lögunum er stórlega ofmetin. Ég hef séð t.d. að að baki hinum og þessum ákvæðum í þessum lögum þekki ég kannski eitt eða tvö tilvik á þessu 15 ára tímabili sem ég get ímyndað mér að séu ástæðan fyrir einhverri ákveðinni tillögu. Ég held að nýjustu tölurnar um þann fjölda flóttafólks sem leitaði hingað á síðasta ári séu um 4.500. Þegar við erum með þann fjölda einstaklinga þá getur það ekki verið forgangsmál að koma í veg fyrir að tveir til þrír, fjórir eða fimm misnoti kerfið. Ég get alveg skilið að stjórnvöldum gremjist það þegar einhverjum tekst að svindla á kerfinu með einhverjum hætti. Það á við alls staðar. En við sjáum þessa fordóma því miður í öllum kerfum sem ætlað er að koma til móts við fólk eða tryggja réttindi fólks sem er af einhverjum ástæðum berskjaldað eða í óöruggri stöðu og þarf á stuðningi og aðstoð að halda. Við sjáum þetta í örorkukerfinu, við sjáum þetta í öllu félagslega kerfinu þegar það kemur einhver svona, ég ætla leyfa mér að segja, fordómafullur fókus á þá sem gætu verið að svindla á kerfinu.

Það sem kannski er alvarlegast við það sem er verið að leggja hér til er að nú var hv. þingmaður í allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, sem óskaði ítrekað eftir — og reyndar hefur hv. þm. Sigmar Guðmundsson líka gert þetta fyrir allsherjar- og menntamálanefnd þrátt fyrir að vera bara áheyrnarfulltrúi — tölulegum upplýsingum um það hvað við erum að tala um marga einstaklinga sem eru svona rosalega mikið að svindla á kerfinu og þessar upplýsingar fást ekki. Einu upplýsingarnar sem við höfum fengið er svar við fyrirspurn hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur til hæstv. dómsmálaráðherra um það hversu margar umsóknir voru metnar bersýnilega tilhæfulausar. Á síðustu tveimur árum voru þær níu. Af þúsundum umsókna voru níu umsóknir metnar bersýnilega tilhæfulausar. Það sem við erum að bregðast við í þessum lögum er ekki vandamál. Það er verið að skemma kerfið. Það er verið að eyðileggja kerfi sem er gott í grunninn. Það væri betra ef framkvæmdin væri betri. Lögin bjóða upp á að kerfið okkar sé skilvirkt, það sé sanngjarnt og réttlátt og gott. (Forseti hringir.) Hér er verið að leggja til breytingar á lögum til að refsa einhverjum fjórum og það bitnar á 4.000. Það er ekki í lagi, frú forseti. Ég óska eftir því að fá að fara aftur á mælendaskrá.