Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er hérna að ræða c-lið 8. gr. frumvarpsins áfram. Það sem ég er búin að vera að gera grein fyrir er uppruni ákvæðisins sem við erum að breyta. Þarna er verið að breyta 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sem kveður á um það að ef kemur til greina að vísa umsókn frá þá skuli hún engu að síður tekin til efnismeðferðar ef 12 mánuðir eru liðnir frá því að hún var lögð fram svo fremi að tafir á málsmeðferðinni séu ekki ábyrgð umsækjanda sjálfs.

Ég ætla aðeins að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta ákvæði og skýra út líka frekari gagnrýni á þetta. Nú er ég búin að viðra mínar persónulegu skoðanir á þessu, byggðar á minni reynslu og mínum skilningi, og nú ætla ég aðeins að fara yfir það sem Rauði krossinn hefur um þetta að segja. Rauði krossinn er klárlega sá aðili sem hefur mestu og lengstu reynslu af aðstoð við flóttafólk á Íslandi og sinnti raunar alfarið talsmannaþjónustu við hælisleitendur allt þar til sitjandi hæstv. dómsmálaráðherra ákváð að slútta því samstarfi við Rauða krossinn í febrúar eða mars á síðasta ári, algerlega án orða, með leyfi forseta:

„C-liður 8. gr. frumvarpsins kveður jafnframt á um breytingar á síðari málsl. 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga sem fela í sér nánari skýringar á því hvenær tafir á afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd er á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.“ — Þetta er greinilega skirfað af lögfræðingum. Með leyfi forseta: — „Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ekki einungis umsækjandi sjálfur geti verið ábyrgur fyrir töf á eigin máli heldur einnig maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd.“ — Það er augljóslega átt við talsmann fyrst og fremst. Með leyfi forseta — „Í athugasemdum við c-lið 8. gr. frumvarpsins segir að óskýrt orðalag gildandi ákvæðis hafi skapað óvissu og möguleika til misnotkunar, sérstaklega þegar um fjölskyldur eða fólk í hjúskap sé að ræða. Rétt þyki að skýrt verði kveðið á um í lögum að tafir maka eða sambúðarmaka umsækjanda eða þess sem kemur fram fyrir hans hönd, t.d. foreldra, umsjónarmanna og talsmanna, leiði ekki til þess að umsækjandi hljóti efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins í 2. mgr. 36. gr. laganna. Þá segir í c-lið 8. gr. frumvarpsins að við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls skuli m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi dvalist á ókunnum stað um tíma, framvísað fölsuðum skjölum eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti ekki sýnt samstarfsvilja við meðferð, úrlausn eða framkvæmd máls. Teljist umsækjandi á einhverjum tíma hafa tafið mál sitt samkvæmt framangreindu á hann ekki rétt á efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins skv. 2. mgr. 36. gr.

Athygli vekur að í frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá þeirri framkvæmd að láta tafir foreldra eða umsjónarmanna ekki bitna á rétti barna til efnislegrar meðferðar. Er hér raunar lagt til að börn missi rétt til efnismeðferðar ef foreldrar þess eða umsjónarmenn teljast vera valdir að töfum. Hingað til hafa börn verið talin eiga sjálfstæðan rétt til efnislegrar meðferðar eftir 12 mánaða dvöl á landinu,“ — stundum 10 — „bæði óháð því hvenær lokaákvörðun var birt í máli þeirra og ástæðum fyrir lengd dvalar hér á landi. Umrædd breyting tekur ekki tillit til sérstakra þarfa barna og er ekki í samræmi við meginreglu barnaréttar um að við ákvarðanatöku skuli hafa bestu hagsmuni barna að leiðarljósi en regluna er m.a. að finna í 2. mgr. 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem var lögfestur hér á landi þann 6. mars 2013 með lögum nr. 19/2013. Þá gengur umrædd breyting þvert á ákvæði 2. mgr. 2. gr. barnasáttmálans en þar segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima.“

Ég mun halda áfram í næstu ræðu minni. Það ætti að vera orðið öllum ljóst að þetta er bannað, samkvæmt gildandi barnalögum, samkvæmt þeim lögum sem þau eru byggð á, mannréttindasamningum um réttindi barna sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja. (Forseti hringir.) Það er verið að brjóta barnasáttmálann með þessu frumvarpi, það er kýrskýrt. Ég óska eftir því að fá að fara aftur á mælendaskrá.