Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:44]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var hérna í fyrri ræðum að gera umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um útlendinga skil, nr. 80/2016, alþjóðleg vernd, 382. mál, og langar mig að grípa aftur niður í umsögninni þar sem frá var horfið, með leyfi forseta:

„8. gr. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa leggst alfarið gegn breytingum samkvæmt 8. gr. frumvarpsins um breytingar á 36. gr. laganna. Samkvæmt tillögum frumvarpsins skal afnema heimild Útlendingastofnunar til að taka til efnismeðferðar umsóknir einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum hafi þeir sérstök tengsl við Ísland eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ákvæðinu hefur annars vegar verið beitt þegar umsækjandi á nákomna ættingja með fasta búsetu hér á landi eða þegar um sérstaklega viðkvæma umsækjendur er að ræða sem senda hefur átt til landa á borð við Grikkland þar sem flóttafólk býr við afar erfiðar aðstæður. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur mikilvægt að útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála geti enn lagt mat á þessi atriði. Þá vekur athygli að í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingar verði gerðar á síðari málsl. 2. mgr. 36. gr. sem kveður á um það hvenær rétt sé að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar sökum tafa á málsmeðferð sem ekki má rekja til umsækjanda. Með breyttu orðalagi ákvæðisins er lagt til að viðmið stjórnvalda verði sá tími sem það tekur stjórnvöld að komast að endanlegri niðurstöðu í máli umsækjanda á stjórnsýslustigi, án þess að tekið sé tillit til þess tíma sem líður þangað til að viðkomandi er fluttur úr landi líkt og gert er í dag. Með þessari breytingu er komið í veg fyrir að umsækjendur sem fengið hafa niðurstöðu í máli sínu hjá stjórnvöldum innan 12 mánaða, en bíða brottflutnings e.t.v. svo mánuðum skipti, fái umsókn sína tekna til efnismeðferðar hér á landi. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur mikilvægt að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti enn þeirrar réttarverndar að fá umsókn sína tekna til efnismeðferðar frestist brottflutningur þeirra umfram 12 mánuði frá komu þeirra til landsins.

13. gr. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa leggst gegn þessari breytingu því með henni uppfylla einstaklingar sem fengið hafa alþjóðlega vernd á grundvelli 45. gr. laganna ekki skilyrði fyrir frekari fjölskyldusameiningu á grundvelli ákvæðisins. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa gerir athugasemd við að til standi að takmarka sameiningu fjölskyldna. Aðskilnaður fjölskyldumeðlima getur verið einstaklingum á flótta afar erfiður og haft áhrif á líðan og möguleika þeirra til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. 21. gr. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa styður breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Breytingin hvetur til þátttöku í samfélaginu, eflir einstaklinginn og kemur í veg fyrir að fólk stundi „svarta“ vinnu og njóti þar með engrar verndar og réttinda á vinnumarkaði. Að lokum vill mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa leggja áherslu á að frumvarpið og núgildandi lög um útlendinga verði sett í jafnréttismat.“

Nú sýnist mér ég muni varla ná að klára þó að ég eigi afskaplega lítið eftir. Ég held þá áfram: „Samkvæmt 1. gr. laga …“ — Nei, frú forseti. Ég verð víst að láta staðar numið í bili og fá að fara aftur á mælendaskrá.