Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að fara að ljúka umfjöllun minni um þetta ákvæði þar sem það eru fleiri ákvæði í þessu frumvarpi sem bíða og talsvert hefur verið rætt um þetta ákvæði af hálfu annarra þingmanna hér en mín. Ég er sem sagt að tala um c-lið 8. gr. frumvarpsins sem er ákvæðið sem kannski sker sig svolítið úr vegna þess að það er staðfest að það brýtur gegn réttindum barna. Við erum með fullt af ákvæðum í þessu frumvarpi sem lítur út fyrir að séu brot á stjórnarskrá, lítur út fyrir að séu brot á hinum ýmsu mannréttindum en meiri hlutinn hefur algerlega þverneitað okkur um að fram fari óháð mat á því hvort svo sé.

Hér erum við með eitthvað sem er ekki nokkur leið að deila um. Það er brot á réttindum barna. Það er ekki eitthvað sem kom fram seint, eins og hæstv. forsætisráðherra virðist halda að sé vandamálið hér, að það hafi komið fram einhverjar umsagnir allt of seint. Ekki það að það komu fram umsagnir hérna eftir að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar afgreiddi málið úr nefnd. Það er nú bara vegna þess að það var svo mikill asi á að afgreiða málið úr nefndinni að ekki gafst neitt rými til þess að ræða málið á meðal nefndarmanna í nefndinni og það gafst ekki einu sinni tími til að þýða umsögn Flóttamannastofnunarinnar sjálfrar áður en málið var afgreitt úr nefndinni.

Það sem við erum að tala um hérna er bara beinlínis brot gegn börnum og maður hefði kannski haldið að það væri eitthvað sem kæmi hreinlega ekki til greina, alveg sama hvar fólk stendur í flokki eða í pólitík; hvar sem það er. En það er greinilega misskilningur.

Ég ætla að reyna að ljúka þessu með því að fara aðeins aftur í umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði, með leyfi forseta:

„Ákvæðið beinist einkum gegn því að börn séu sett í þá aðstöðu að vera látin líða fyrir athafnir foreldra sinna eða ættingja …“

Hér er verið að ræða 2. mgr. 2. gr. Barnasáttmálans sem segir berum orðum að „aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima.“

Frú forseti. Þetta verður ekkert skýrara. Í þessu ákvæði sem við erum að ræða þá er það ekki bara einhver hliðarverkun af ákvæðinu að athafnir foreldra, aðstandenda, fjölskyldumeðlima eða jafnvel talsmanns barnsins bitni á því. Það er beinlínis tilgangur ákvæðisins. Hvers vegna? Jú, til að koma í veg fyrir misnotkun, til að koma í veg fyrir að einhverjir foreldrar fari að svindla á kerfinu með því að tefja málsmeðferðina og að það sé ekki hægt að láta það bitna á þeim vegna þess að það má ekki bitna á barninu. Hvílíkt óréttlæti. Þarna eru frumvarpshöfundar að láta ótta sinn um það að einhverjir tveir, þrír komist hérna í gegn með einhverju svindli bitna á hagsmunum allra barna sem leita hingað í alþjóðlegri, vernd vegna þess að þetta ákvæði gildir um öll börn. — Með leyfi forseta:

„Rauði krossinn leggst alfarið gegn umræddu ákvæði enda getur umsækjandi aldrei borið hallann af athöfnum eða athafnaleysi þriðja aðila nema sýnt sé fram á að þær megi rekja beint til umsækjanda. Þá er ekki skýrt með neinum hætti til hvaða atriða er heimilt að líta þegar meta skal hvort aðrir aðilar en umsækjandi sjálfur teljast hafa tafið mál. Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar ber það stjórnvald sem bært er til að taka stjórnvaldsákvörðun í máli, ábyrgð á því að mál hafi verið undirbúið forsvaranlega og með það farið í samræmi við ákvæði laga og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar. Af málshraðareglunni leiðir að stjórnvaldið verður að ganga á eftir því með ítrekunum og öðrum virkum úrræðum að önnur stjórnvöld svo og málsaðilar skili inn gögnum og umsögnum í samræmi við lög. Það er því ljóst að viðkomandi stjórnvald ber að meginstefnu ábyrgð á málshraða. Allar undantekningar frá þeirri reglu ber að túlka þröngt. Þá ber að gæta þess að ekki séu settar ósanngjarnar kröfur á málsaðila eða umboðsmenn þeirra í krafti málshraða. — Allar undantekningar frá þeirri reglu ber að túlka þröngt — Þá ber að gæta þess að ekki séu settar ósanngjarnar kröfur á málsaðila eða umboðsmenn þeirra í krafti málshraða. Þannig getur það ekki talist sanngjarnt að umsækjendum um alþjóðlega vernd eða umboðsmanni hans sé veittur mjög knappur frestur til öflunar gagna eða ritinu umsagna þegar stjórnvöld hafa ekki gætt að málshraða, reglunni og fyrirséð er að mál mun falla á fresti fái umsækjandi eða talsmaður hans eðlilegan tíma til að skila inn gögnum.“

Ég ætla að staldra við þarna þar sem ég er að falla á tíma. Það eru ótal reglur, viðmið og meginreglur, bæði skráðar og óskráðar, og annað í stjórnsýslunni sem gerir það að verkum að það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja það að málsmeðferð sé í samræmi málshraðaregluna og innan tímafresta. Það er ekki á ábyrgð umsækjenda neins staðar og það á við í þessum málum sem öðrum. (Forseti hringir.) Ég mun fara aðeins nánar út í það í minni næstu ræðu. Svo ætla ég að segja skilið við þetta ákvæði. Ég óska eftir því að fá að fara aftur á mælendaskrá.