Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:01]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Í síðustu ræðum hef ég verið að gera skil umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um útlendinga, nr. 80/2016, alþjóðlega vernd, 382. mál. Nú er svo komið að ég hugsa að ég nái að klára yfirferðina í þessari ræðu. Þetta er bara ein málsgrein. Með leyfi forseta:

„Samkvæmt 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, er markmið þeirra að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Þar segir einnig að markmiðinu skuli náð með því að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum. Jafnréttismatið þarf að taka til fleiri þátta en kynja s.s. fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Í nýjustu útgáfu frumvarpsins var aðeins gert jafnréttismat á 6. gr. frumvarpsins. Eins og áður segir þurfa lögin og frumvarpið að fara í jafnréttismat.“

Undir þetta er ritað af mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Það sem þessi umsögn ber með sér, líkt og ótal margar aðrar, er að vara við ákveðnum greinum frumvarpsins, þeim greinum sem bersýnilega eru skaðlegastar og koma verst við réttindi fólks. Hér er líka verið að óska eftir því að gengið verði úr skugga um ýmsa þætti, að gengið verði úr skugga um að þetta standist mannréttindi, að búið sé að meta jafnréttisáhrif frumvarpsins. Þetta eru atriði sem margar aðrar umsagnir koma einnig inn á og er eiginlega afar umhugsunarvert að því hafi ekki verið sinnt að gæta að þessum hlutum vegna þess að annars vegar ætti ekki að vera mikið tiltökumál að gaumgæfa þetta og hins vegar er svo mikið í húfi að við tryggjum að bæði mannréttindi og jafnrétti séu tryggð með lagasetningunni.

Með því að gaumgæfa þessa hluti ekki þá lít ég á það sem svo að þessir miklu hagsmunir okkar borgaranna í þjóðfélaginu séu bara látnir reka á reiðanum og ég líki þessu við það að ef mér er kalt úti laga ég ekki neitt með því að teikna á hitamælinn. Við þurfum bara að bregðast við þeim staðreyndum sem blasa við okkur. Við þurfum að bregðast við því að við sem löggjafarvald þurfum að gaumgæfa það að þau lög sem við setjum standist skoðun þannig að þegar þeim er beitt þá sé hægt að beita þeim. Það hefur læðst að mér sá grunur í þessari vinnu sem við erum að vinna hér að það sé reiknað með því að það muni hreinlega aldrei reyna á þetta af því að fólkið sem myndi láta reyna á þetta er komið úr landi. Það hefur ekki burði til að láta reyna á það. En ég er þess fullviss, frú forseti, að það mun reyna á þessi ákvæði með einum eða öðrum hætti á einhverjum tímapunkti. Þá er eins gott að við höfum passað að fara eftir þeim reglum sem okkur eru settar.