Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:17]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Hér í ræðu minni áðan var ég að fara yfir útdrætti úr umsögnum ýmissa aðila og við það að kynna mér umsögn Rauða krossins þá einfaldlega fannst mér hún það áhugaverð að mig langaði að gera henni ögn skil hér í ræðustól. Mér finnst raunar mikilvægt að þessar umsagnir fái umfjöllun og að þeim séu gerð skil hér þrátt fyrir að lítið hafi verið gert við þær við að semja frumvarpið. Þá gríp ég hér niður í umsögn Rauða krossins á Íslandi, með leyfi forseta:

„Um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd) 153. löggjafarþing 2022–2023 Þingskjal 400 – 382. mál.

Rauði krossinn á Íslandi stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga og vinnur að málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd í samvinnu við stjórnvöld og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Rauði krossinn hefur ítrekað gagnrýnt skort á samráði og samtali við aðila sem starfa í málaflokknum og hafa til þess sérþekkingu og reynslu við gerð frumvarpsins, sem og neðangreindra frumvarpa sem ekki hafa náð fram að ganga. Telur félagið mikilvægt að þær víðtæku lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu unnar í þverfaglegu samráði svo sátt geti skapast um stefnu og lagaumhverfi í málefnum fólks á flótta. Umsögn Rauða krossins er mótuð af mikilli og langri reynslu sem félagið hefur af málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna. Við yfirferð frumvarpsins hefur Rauði krossinn haft til hliðsjónar grundvallarhugsjónir hreyfingarinnar um mannúð, óhlutdrægni og hlutleysi sem og stefnu Alþjóðahreyfingar Rauða krossins í málefnum sem tengjast flóttafólki, umsækjendum um alþjóðlega vernd og alþjóðlegum fólksflutningum. Ábendingar og athugasemdir félagsins miða að úrbótum, þar sem hagsmunir stjórnvalda og þeirra einstaklinga sem í hlut eiga fara að öllu jafnan saman.

I. Almennar athugasemdir

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga var lagt fram á 149. löggjafarþingi (þskj. 1334, 838. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt á 150. löggjafarþingi (þskj. 1228, 171. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt þriðja sinni á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) en náði heldur ekki fram að ganga. Á 152. löggjafarþingi (þskj. 837, 595. mál) var frumvarpið endurflutt í fjórða sinn en í breyttri mynd. Frumvarpið náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt í fimmta sinn. Rauði krossinn hefur áður skilað inn ítarlegum umsögnum um fyrri frumvörp og frumvarpsdrög, síðast með umsögn hinn 31. maí sl., þar sem gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við fjölmörg ákvæði frumvarpsins. Sum þeirra ákvæða eru í óbreyttri mynd í hinu nýja frumvarpi en önnur hafa tekið einhverjum breytingum. Rauði krossinn telur miður að frumvarpið taki ekki á þeim vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir varðandi þá umsækjendur sem hér sitja fastir og réttindalausir og ekki er hægt að flytja úr landi. Dæmi um slíka umsækjendur eru umsækjendur frá Írak sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en íröksk stjórnvöld samþykkja ekki endurviðtöku á. Að mati Rauða krossins vantar inn í frumvarpið ákvæði sem tekur á vanda þessa hóps en einungis er þar að finna tillögu sem þröngvar þeim á götuna í þeirri von að þeir fari sjálfviljugir úr landi, sbr. 6. gr. frumvarpsins um þjónustusviptingu. Hinn 3. nóvember sl. sendi Rauði krossinn dómsmálaráðuneytinu ítarlega umfjöllun unna upp úr skýrslu félagsins um aðstæður umsækjenda í framangreindri stöðu hér á landi.“

Hér verð ég að staldra við því tími minn er á þrotum en ég óska þess að fara aftur á mælendaskrá.