Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég má til með að fara hér örlítinn útúrdúr í kjölfar orða hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þar sem hún fór yfir það hvernig fólk gæti komist til Íslands, hvernig einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi geti ferðast til Íslands vegna þess að flóttafólk fær náttúrlega gefin út nafnskírteini. Þau fá gefin út ferðaskilríki samhliða því að umsóknin um alþjóðlega vernd er samþykkt og sama er náttúrlega upp á teningnum hér á landi.

En það rifjaðist upp fyrir mér vegna þess að fyrr í vetur birti dómsmálaráðuneytið loksins drög að frumvarpi til laga um nafnskírteini í samráðsgátt stjórnvalda þar sem á núna að fara að gefa út það sem þau kalla handhæg nafnskírteini sem munu teljast örugg persónuskilríki og jafnframt gild ferðaskírteini á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er löngu tímabært. Nafnskírteini eins og þau eru í dag, ætli þau séu ekki svona sirka á við tvö eða þrjú greiðslukort, prentuð á hvítan skrifstofupappír og plöstuð, minna bara dálítið á gömlu risastóru bleiku ökuskírteinin nema þau eru hvít, en hugmyndin er núna að færa þau í greiðslukortastærð eins og tíðkast um alla Evrópu. Það er náttúrlega til Evrópustaðall um þetta og það verður væntanlega byggt á honum hér á landi við þessa innleiðingu.

Það sem mig langaði að nefna er að í þessum drögum að lögum um nafnskírteini sem kynnt voru í samráðsgáttinni er sérstaklega tekin sú ákvörðun að þessi nafnskírteini verði afmörkuð við íslenska ríkisborgara og að eftir sem áður verði það í höndum Útlendingastofnunar að gefa út ferðaskírteini fyrir þau sem njóta alþjóðlegrar verndar og gefa út vegabréf fyrir útlendinga. Mér finnst þetta svo lýsandi fyrir það hversu strangt taumhald Útlendingastofnun vill hafa á öllum málaflokknum að dómsmálaráðuneytið er ekki einu sinni fáanlegt til þess að fela annarri stofnun að prenta skírteini fyrir þann hóp sem Útlendingastofnun vill ráða öllu um. Og vel að merkja þá stendur bara í 2. gr. þessara frumvarpsdraga að þó að þjóðskrá eigi að gefa út skírteinin þá geti sýslumenn eða lögregla eða hvaða önnur stjórnvöld sem er tekið við umsóknum um nafnskírteini eftir því sem ráðherra ákveður og þar undir fellur náttúrlega Útlendingastofnun sem, ef hún vill endilega stýra öllu sem snertir málaflokk útlendinga, gæti sem hægast verið gáttin inn í þetta fyrir fólk sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt og safnað þeim upplýsingum sem þarf til að setja útgáfuna af stað. Síðan myndi þjóðskrá gefa þau út alveg eins og öll önnur nafnskírteini á landinu.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að hlusta á hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur tala áðan vegna þess að þetta kristallar svo vel hversu fullkomin afskiptasemi Útlendingastofnunar er af öllum þáttum daglegs lífs og tilveru útlendinga í landinu, hvernig hún telur sig umboðna til að hafa yfir öllu að ráða sem þessi hópur getur þurft á að halda. Þannig að já, þetta er eins og ég segi útúrdúr og væntanlega eitthvað sem við munum fara betur út í þegar þessi langþráða tillaga um nafnskírteini ratar loksins til okkar þannig að við fáum nafnskírteini sem hæfa 21. öldinni en líta ekki út eins og eitthvað sem hefur verið í rassvasa síðan 1970.