154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:01]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhugann sem hún hefur hingað til sýnt innlendri matvælaframleiðslu. Ég ætlaði aðeins að koma inn á samkeppni. Við verðum að hafa það í huga að það er vissulega samkeppni hér á matvælamarkaði, í smávöruverslun og öðru. Samkeppnin kemur fyrst og fremst erlendis frá. Ég kom ágætlega inn á það í minni ræðu að á meðan tollaumhverfi er eins og það er, t.d. bara eins og með útboði á tollkvóta í nautakjöti þar sem kvótinn fór og 1 kr. — það segir sig sjálft að samkeppnin er gríðarleg. Við erum að tala í þessu samhengi um 350–360 tonn af hreinum vöðvum. Það eru ansi mörg naut. Þannig að höfum það í huga að samkeppni er af hinu góða en samkeppni þarf að vera gerð á réttum grunni.