154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú er því þannig háttað að því miður er Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, sem lagði fram málið, í veikindaleyfi. En að sjálfsögðu er annar tekinn við og þetta mál hef ég svo sem ekki rætt beint við þann ágæta ráðherra. Hefur þetta áhrif, styðja málin við hvort annað eða deyja þau bæði inni í nefndinni og hvernig förum við með þetta? Nú eru mál unnin þannig, hv. þingmaður, og ég veit að hann þekkir það vel enda hefur hann góða reynslu af nefndarstarfi, að nefndirnar taka málin til sín, fara yfir þau. Það hafa verið gerðar atlögur að þessu máli sömuleiðis á fyrri kjörtímabilum. Hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson fór af stað með ákveðið mál og eins og kom fram hjá hv. þingmanni fór núverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, af stað með ákveðið mál sömuleiðis sem er í svipuðum dúr og hér var rætt. Niðurstaðan varð þessi, að fara af stað með framleiðendafélögin og ef hv. þingmaður hefur fylgst með þeirri umræðu sem fór fram í þingsal þegar hæstv. matvælaráðherra mælti fyrir málinu þá var það alveg skýrt af hálfu ráðherra að nú afhenti hún þinginu þetta mál og nú skyldi þingið taka til starfa. Atvinnuveganefnd er byrjuð að vinna að því máli. Hver niðurstaðan verður veit ég ekki og þó að sá sem hér stendur sé formaður atvinnuveganefndar þá er hann ekki einráður, svo einfalt er nú lífið ekki. En við leggjum okkur fram við að ná (Forseti hringir.) skynsamlegri niðurstöðu í því máli. Það er alveg algjörlega ljóst.