154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:11]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til að taka undir og mæla með þessu frumvarpi. Það er vonandi að þetta nái loksins fram að ganga. Þetta er búið að vera kappsmál hjá okkur í Framsókn frá því að hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson lagði það fyrst fram 2018, þegar hann kom hingað inn sem varaþingmaður, og síðan fékk ég að flytja það einu sinni og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir heitin flutti það einu sinni. Þegar Þórarinn Ingi Pétursson kom hérna inn þá tók hann við keflinu en við fylgjum fast á eftir. Það er frumvarp eða tillaga í atvinnuveganefnd frá hæstv. matvælaráðherra sem fjallar um svipað efni. En þó vil ég segja að þetta frumvarp taki betur utan um þennan markað þar sem það nær yfir allan kjötiðnað, allar afurðastöðvar í kjötiðnaði.

Við leggjum málið fram til þess að bæta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Við þurfum ekki nema að horfa til nágrannalanda okkar í Evrópu og sjá fyrir hvað þeirra barátta stendur fyrir. Það eru mikil mótmæli, og við höfum fengið að fylgjast með þeim í fréttum, í Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi og Hollandi. Þeir bændur eru einmitt að vekja máls á mikilvægi samkeppnishæfni þeirra með sínar vörur. Þetta er akkúrat það sem við erum að keppa við, við eigum síðan að keppa við þessi lönd, þeirra framleiðslu. Í Frakklandi tala þeir um að það borgi sig ekki fyrir þá að framleiða ávexti og grænmeti því að það kemur ódýrt frá Spáni. Þetta stóra regluverk innan Evrópusambandsins er ekki alveg að ganga sem skyldi. Þeir eru t.d. að mótmæla umhverfisreglum sem Evrópusambandið og þeirra lönd eru að setja þeim. Þeir eru að herða eftirlit með afurðunum. Samkeppnishæfni okkar miðar einmitt að því að geta unnið betur saman eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur eða viljum ekki mótmæla neinum umhverfisáhrifum því að við höfum hreinar afurðir og viljum byggja undir það. Við höfum sérstaklega síðustu ár verið að styrkja akkúrat þessa sérstöðu. En þessi sérstaða kostar, alveg eins og bændur í Frakklandi eru að leggja áherslu á og benda á. Þessi sérstaða kostar því að þar sem eiturefni eru leyfð eins og á Spáni þá þýðir það að varan er ódýrari og hún flæðir þá yfir á þeirri forsendu að þetta er ódýrari matvara og selst þá betur og þá eru stærri markaðir fyrir hana.

Þetta eigum við akkúrat að forðast og getum það vegna þess að við höfum alltaf passað upp á þetta. Árið 2019 var sett aðgerðaáætlun hvað varðar matvælaöryggi og heilbrigði dýra og velferð. Þetta voru 17 aðgerðir í aðgerðaáætluninni sem atvinnuveganefnd flutti og sat ég einmitt í þeirri nefnd. Fimmta aðgerðin snerist einmitt um sýklalyfjaónæmi og það er alveg gríðarlega mikilvægt að við pössum okkur á að forðast það, við vitum að í nágrannalöndum okkar er það vandamál. En eins og bent var á hér áðan af hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þá er fólk farið að kalla frekar eftir heilbrigðri vöru. Við höfum hana hér. Þess vegna eigum við að búa betur um samkeppnishæfni íslenskra vara, íslenskra matvæla. Ein sterkasta leiðin sem við höfum til þess og höfum bent reglulega á er í gegnum kjötiðnaðinn, sem er laus við sýklalyfjaónæmi og önnur umhverfisáhrif. Við erum í flestum tilfellum í flestum kjötgreinum, t.d. í sauðfé, með vistvænar afurðir, og í nautakjötinu og öllum kjötiðnaði hér. Þá er ég að tala um kjúklinga og svín. Þá pössum við upp á að sýklalyf séu ekki notuð að óþörfu og við búum hér við strangt regluverk hvað þetta varðar. Og við kveinkum okkur ekki undan því. Íslenskir bændur kveinka sér ekkert undan því. Þeir koma ekki hér með skítadreifarana hér á Austurvöll til að mótmæla því.

Allt það sem við getum gert til að byggja undir og styrkja samkeppnishæfni er mjög mikilvægt. Markmiðið með þessu frumvarpi er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar. Það er nefnilega málið.

Ég vona að við getum bara sammælst um — og við erum að tala um samruna, kannski er hægt að samræma og sameina þetta frumvarp því frumvarpi frá matvælaráðherra sem liggur í atvinnuveganefnd til að ná þessum markmiðum fram, að bæta sem best samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu og íslensks landbúnaðar