154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði aðeins að koma upp í lokin á þessari ljómandi góðu umræðu og taka saman nokkra punkta. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson velti fyrir sér gullhúðun í þessu samhengi. Það er nú orðið ansi vinsælt að velta fyrir sér hvort við séum að gullhúða hitt og þetta og sumir tala um blýhúðun. Það er alveg þannig, eins og kom fram í máli hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, að við erum jú að vinna hér eftir ákveðnum leikreglum en við þurfum sömuleiðis að horfa til þess hvernig hlutirnir eru gerðir í nágrannalöndunum og það kemur ágætlega fram í greinargerð með þessu frumvarpi að það eru undanþágur, mismunandi undanþágur innan landa Evrópusambandsins hvernig menn hafa hlutina og það er líka misjöfn framleiðsla innan landsins, milli landa o.s.frv. Við þekkjum sömuleiðis inngrip sambandsins sjálfs við að verja sambandið fyrir vöruskorti, þ.e. menn kaupa upp birgðir og eiga birgðir. Ég hlustaði á orðaskipti hv. þingmanna áðan, Njáls Trausta Friðbertssonar og Magnúsar Árna Skjölds Magnússonar, varðandi hvort Evrópusambandið sé gott eða slæmt en ég ætla ekki að fara út í þá umræðu. Það er margt gott í stefnu Evrópusambandsins sem varðar landbúnaðinn. Bændur þar eru mjög óhressir með sín kjör. Við þurfum ekki að fara lengra aftur en bara núna í haust og hvernig við brugðumst við varðandi vanda bænda hér heima, sérstaklega eins og með mjólkurframleiðsluna, og hverju er um að kenna hverju sinni. Það eru náttúrlega bara margar ástæður fyrir því. Hér var það fyrst og fremst hækkun aðfanga og sömuleiðis fjármagnskostnaður sem var að fara með rekstur þessara búa. Nákvæmlega það sama á við um almenning í landinu, þetta er búið að bíta allverulega í. Það eru því margir þættir hvað þetta varðar.

Við skulum hafa það hugfast að þótt við séum eyja í Norður-Atlantshafi þá er samkeppni á smásölumarkaði um matvörur, þ.e. ef við berum saman kjöt og mjólk og annað. Þó svo að við séum hér með ákveðið tollaumhverfi þá kemur samkeppnin fyrst og fremst erlendis frá, það er bara þannig. Þetta er örmarkaður hér heima og það hefur komið hér fram í ræðum varðandi stærðarhagkvæmnina sem við erum að keppa við í nágrannaríkjunum að við verðum að horfa til þess hvernig við getum lyft upp innlendri matvælaframleiðslu hér. Ég er þeirrar skoðunar að þetta frumvarp sem við erum búin að ræða hér og sem tengist svo yfir í annað frumvarp sem er hjá okkur í atvinnuveganefnd sé bara eitt skrefið í því að bæta starfsumhverfi landbúnaðarins. Við þurfum að taka mörg fleiri skref og þetta er bara eitt af þeim skrefum. Við þurfum að horfa til allra þátta sem þar koma að.

Í atvinnuveganefnd í gær vorum við að ræða ættliðaskipti. Það var mjög áhugaverð umræða. Það vantar ekki áhugann á að taka þátt í verkefninu en fjárhagslega er það bara því sem næst vonlaust og eðlilega veigrar fólk sér við að fara út í þessa framleiðslu. Ég þekki þetta ágætlega. Ég byrjaði í þessu 22 ára og er búinn að vera í þessu síðan, í 30 ár að verða. Við verðum að horfa á þetta í heild sinni. Það er ekki bara einn þáttur sem lagar allt en ég er alveg klár á því að ef við berum saman framleiðslu á kjöti og mjólk hér heima og það skref sem var stigið 2004 varðandi mjólkurframleiðsluna, þ.e. undanþágu frá 71. gr. búvörulaga, að það skipti sköpum fyrir þá framleiðslu og þá hagræðingu sem átti sér stað eftir það.

Ég vil leiðrétta hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson varðandi einn þátt, að það hafi ekki verið nein ný mjólkurstöð. Á Sauðárkróki hefur verið byggð ný mjólkurstöð og ostaframleiðsla sem er þar inni, gríðarlega áhugavert og gaman að koma og skoða það. En þegar við komum í sláturhúsin hefur ekki verið framkvæmt hér í 40 ár. Við erum með sláturlínur sem, eins og ég kom inn á áðan, er 60% nýting á. Við erum með sláturhús vítt og breitt um landið sem við erum að nota í átta vikur á ári og með svona „la la“ afköstum. Það segir sig sjálft í venjulegum „bisness“ — ég biðst afsökunar, forseti, að hafa slett ensku orði — það segir sig alveg sjálft að þetta væri svipað og við myndum vera með smíðafyrirtæki og við værum með 20 manns á launum en það væru bara þrír sem gerðu venjulega eitthvað. Hinir væru bara á launum og horfðu á og fyrirtækið þyrfti síðan að ná einhverri arðsemi út úr þeirri framkvæmd sem við værum með. Þá færi það annaðhvort í það að borga viðkomandi einstaklingum mjög léleg laun, við getum borið það bara saman við afurðirnar, sömuleiðis þyrfti viðkomandi aðili að selja fasteignina mjög hátt, það eru neytendurnir, til að geta staðið undir þessu og haft eitthvað út úr þessu. Það er þetta sem við erum að eiga við. Ef maður setur það í þetta samhengi er það alltaf þannig að eftir því sem við skoðum þetta meira, og þetta er nú í fimmta eða sjötta skiptið sem málið er borið hér fram og rætt, þá segi ég bara: Því í ósköpunum erum við ekki búin að þessu? Í mínum huga er það svo augljóst hverju við getum náð þarna fram.

Það hefur líka verið talað um þessi sóknartækifæri og hv. þingmenn ræddu um íslenskan lambið. Í mínu fyrra lífi sem formaður sauðfjárbænda þá gerði ég búvörusamning sem er enn við lýði. Farið var af stað með verkefni sem heitir „Icelandic lamb“. Hv. þingmenn þekkja það ágætlega, menn hafa farið á veitingastaði og það er þarna ákveðinn skjöldur sem gefur til kynna að hér sé íslenskt lamb á boðstólum. Árið 2017 var sótt um upprunavottun fyrir íslenska lambið, að fá viðurkenningu á því að hér væri um íslenskt land að ræða. Sú vottun kom á síðasta ári. Það er hægt að fara þessa leið. Þetta er viðurkenning á framleiðslunni. Það er fjöldinn allur af ferðamönnum sem kemur til landsins til þess að borða lambakjöt. Það eru til rannsóknir sem sýna fram á það og það eru mjög áhugaverð komment ef menn fara inn á vefsíður sem þessu fylgja. Þarna eru menn virkilega að sækjast eftir ákveðnum gæðum. Þetta er eitt af þeim tækifærum sem við höfum. Tækifærin eru handan við hornið en við þurfum þá að hafa þor til þess, löggjafinn, að skapa ákveðna umgjörð, starfsumgjörð til að matvælaframleiðsla nái að blómstra.