154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

breyting á ýmsum lögum til styrkingar á réttarúrræðum vegna umhverfismála og réttindum til heilnæms umhverfis.

34. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til styrkingar á réttarúrræðum vegna umhverfismála og réttindum til heilnæms umhverfis. Flutningsmenn þessarar tillögu, ásamt þeim sem hér stendur, eru hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jódís Skúladóttir.

Meginefni þessa frumvarps er í fyrsta lagi að rýmka aðildarreglur fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Breytingarnar eru til þess gerðar að rýmka skilyrði um lögvarða hagsmuni einstaklinga í ljósi eðlis umhverfis- og auðlindamála. Verði frumvarp þetta að lögum eykst svigrúm einstaklinga í erfiðri sönnunarstöðu til að fá úr réttarstöðu sinni skorið og aðgengi þeirra að réttarúrræðum vegna umhverfis- og auðlindamála er betur tryggt. Þá eru skilyrði fyrir aðild félagasamtaka rýmkuð til að auka aðgengi þeirra að réttarúrræðum.

Í öðru lagi er lagt til að rýmka aðild samtaka fyrir dómstólum þegar mál falla ekki undir efnissvið úrskurðarnefndarinnar. Aðrar leiðir fyrir félagasamtök til að leita til dómstóla er að finna í íslensku réttarkerfi, svo sem með 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Slíkur málarekstur sætir þó þeim takmörkunum að félagsmenn samtakanna þurfa að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn sakarefnisins sem fellur ekki vel að málum sem varða almannahagsmuni og umhverfið. Í frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar til úrbóta á réttarstöðu félaga sem starfa í þágu almannaheilla. Slíkt er í samræmi við það sem tíðkast á Norðurlöndunum þar sem samtökum er ekki meinaður aðgangur að dómstólum vegna skorts á lögvörðum hagsmunum í sama mæli og tíðkast hérlendis.

Í þriðja lagi er lagt til að gera aðilum kleift að láta reyna á aðgerðaleysi fyrir nefndinni enda getur aðgerðaleysi verið jafn skaðlegt eða enn skaðlegra umhverfinu og hagsmunum fólks en aðgerðir. Aðalheiður Jóhannsdóttir og Kristín Benediktsdóttir hafa bent á að vafi leiki á því hvort Ísland hafi uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt Árósasamningnum vegna 2. mgr. 9. gr. og þar með 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 2011/92 varðandi aðgerðaleysi þar sem á skortir að kveðið sé á um kærurétt umhverfisverndarsamtaka til úrskurðarnefndarinnar.

Við gerð þessa frumvarps var sérstaklega horft til ákvæða Árósasamningsins, sér í lagi 5. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 9. gr. samningsins, sem og til Norðurlanda. Þar er aðgengi félagasamtaka og einstaklinga að réttarúrræðum, sér í lagi á sviði umhverfis- og auðlindamála, rýmra en hér á landi ásamt rétti til áfrýjunar eða endurskoðunar á niðurstöðu mála þótt það sé ekki algilt. Sérstaklega er vikið að lagaumhverfi Norðurlanda í þessu tilliti í greinargerð frumvarpsins og hvet ég öll áhugasöm til að kynna sér það.

Réttur til heilnæms umhverfis hefur verið viðurkenndur sem sjálfstæð mannréttindi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í ályktunum allsherjarþingsins og mannréttindaráðsins. Hann tengist þýðingarmiklum réttindum einstaklinga sem njóta m.a. verndar 2. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Til ályktana Sameinuðu þjóðanna hefur verið vísað í vinnu Evrópuráðsins og ályktunum Evrópuráðsþingsins, nú síðast í yfirlýsingu leiðtogafundarins í Reykjavík í maí 2023. Í íslenskri stjórnskipan er rétturinn til heilnæms umhverfis ekki viðurkenndur sérstaklega en nýtur öðrum þræði verndar að íslenskum rétti fyrir tilstilli mannréttindasáttmála Evrópu.

Í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 151. löggjafarþingi var lögð til breyting á 79. gr. stjórnarskrárinnar og mælt fyrir um rétt allra til heilnæms umhverfis. Í frumvarpinu segir m.a.:

„Ákvæðið vísar til einstaklingsréttinda en miðar jafnframt að því að tryggja sameiginlega hagsmuni núlifandi og komandi kynslóða.“

Þá segir í greinargerð með frumvarpinu:

„Handhöfum ríkisvalds kann að vera skylt að gera ráðstafanir svo að tryggja megi þau réttindi sem ákvæðið mælir fyrir um. Það fer augljóslega eftir ástandi náttúru og umhverfis hvaða aðgerða er nauðsynlegt að grípa til og hvaða hömlur þarf að leggja á framkvæmdir og starfsemi. Margvíslegar reglur hafa verið settar hérlendis sem ætlað er að tryggja heilnæmt umhverfi. Má í því sambandi nefna löggjöf um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs og vatnsvernd. Einnig er löggjöf sem lýtur að skipulagsáætlunum og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana þýðingarmikil. Beint samband er á milli 2. og 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar enda er upplýsinga- og þátttökuréttur almennings forsenda þess að hann geti gætt réttar síns til heilnæms umhverfis.“

Í mínum huga kristallast inntak Árósasamningsins í þessum áformum sem því miður runnu út í sandinn, enda höfum við innleitt Árósasamninginn sem hefur það að markmiði að stuðla að vernd réttar hvers einstaklings, núlifandi kynslóða og framtíðarkynslóða til að lifa í umhverfi sem stuðlar að góðri heilsu og velferð. Samningurinn inniheldur ekki beinan rétt til heilnæms umhverfis heldur er honum ætlað að nýtast almenningi og félagasamtökum sem tæki til að stuðla að slíkum réttindum. Nái frumvarp þetta fram að ganga tel ég að það setji mikilvægar vörður á þeirri þroskaleið.

Eins og áður segir hefur borið á því að aðgangur félagasamtaka, einstaklinga og fræðimanna að réttarúrræðum vegna málefna sem varða umhverfið sé of takmarkaður en megininntak samningsins er að tryggja réttláta málsmeðferð í umhverfismálum með bættu aðgengi að upplýsingum og með aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Rétturinn til heilnæms umhverfis er undirstrikaður í upphafsorðum Árósasamningsins þar sem ofin eru saman grundvallarmannréttindi og með samningnum er viðurkennt að sérhver manneskja eigi rétt til þess að búa í heilnæmu umhverfi sem mætir þörf hennar fyrir heilsu og velferð. Þá ber manninum skylda, einum og í samstarfi við aðra, að vernda og hlúa að umhverfinu fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Frumvarpið miðar að því að tryggja aðgengi einstaklinga og félaga að réttarúrræðum vegna umhverfisins samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og því að veita félögum aukinn aðgang að dómstólum að norrænni fyrirmynd. Samkvæmt dómaframkvæmd fyrir tíð laga nr. 150/2011 gátu félög sem voru aðilar að stjórnsýslumáli leitað á náðir dómstóla til endurskoðunar á grundvelli 60. gr. stjórnarskrárinnar. Lög nr. 150/2011 hafa ekki greitt þá leið, þvert á móti virðast þau hafa hindrað aðgang félaga að dómstólum.

Í frumvarpi þessu er leitast við að leiðrétta það og auka samræmi milli réttarstöðu samtaka og einstaklinga og 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands samkvæmt Árósasamningnum og EES-rétti. Með innleiðingu Árósasamningsins hefur Ísland skuldbundið sig til þess að virða markmið samningsins um að stuðla að vernd réttar einstaklinga og framtíðarkynslóða til að lifa í umhverfi sem stuðlar að góðri heilsu og velferð þeirra. Það er mat flutningsmanna að tryggja megi betur ákvæði Árósasamningsins ef frumvarp þetta verður að lögum. Rétturinn til heilnæms umhverfis eru grundvallarmannréttindi. Við erum einnig hluti af tilverunni, af náttúrunni og hún á sömuleiðis sinn eigin rétt til að þróast áfram á eigin forsendum.