131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:34]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem þegar hefur átt sér stað um þetta mikilvæga mál, frumvarp til vatnalaga, og tek undir það með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að við erum rík af vatni. Vatnið er okkur mjög mikilvægt. Þess vegna er mikilvægt líka að við höfum lög í landinu um þetta málefni sem eru nokkuð í takt við tímann. Þar sem núgildandi lög eru frá árinu 1923 held ég að öllum hljóti að vera ljóst að þau eru að einhverju leyti orðin úrelt. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram. Ég tel að það sé þannig að vöxtum að ekki ætti að þurfa að vera um það mikill pólitískur ágreiningur. Það er ekki um það að ræða að verið sé að bylta þessu máli, heldur fyrst og fremst verið að nálgast hlutina á annan hátt og að því leyti til er ekki um neinar grundvallarbreytingar að ræða.

Eins og ég hef sagt er inntakinu ekki breytt heldur forminu og mig langar til að vitna til umfjöllunar Þorgeirs Örlygssonar, fyrrverandi prófessors í eignarrétti við Háskóla Íslands, í ritinu Kaflar úr eignarrétti I. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„En þó svo að fræðilega sé á því byggt í vatnalögunum að landeigendur hafi aðeins þau vatnsréttindi sem lög heimila sérstaklega er eigi að síður í lögunum gengið svo til móts við álit minni hluta fossanefndar að í raun má segja að stefna minni hlutans hafi sigrað og hefur ekki verið um það fræðilegur ágreiningur í íslenskum rétti. Segir í 2. gr. vatnalaga að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni og stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.

Fela lögin í sér upptalningu á því hverjar hagnýtingarheimildir fylgja eignarrétti að landareign þegar um stærri vötn er að ræða. Þar er á hinn bóginn um að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir sem máli geta skipt, þar á meðal heimild til orkuvinnslu.“

Meginreglan um rétt landeigenda til nýtingar orku var, kemur fram í 49. gr. vatnalaga, en þar segir m.a. svo:

„Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku […]“

„Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar og dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu. Má til staðfestingar þessu t.d. líta til hins svokallaða Kífsárdóms sem er frá árinu 1955.“

Þessi tilvitnun sýnir að sú breyting sem lögð er til með þessu frumvarpi er ekki efnisbreyting heldur formbreyting og þetta finnst mér mjög mikilvægt að haft sé í huga miðað við ýmislegt sem hér hefur verið sagt.

Það er talað um að skýringar vanti á markmiðsákvæði 1. gr. en þar stendur, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.

Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni eða farvegi þess umfram það sem nauðsynlegt er.“

Um þetta er síðan fjallað í greinargerð og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spyr mig að því hvaða skilning ég leggi í sjálfbæra þróun. Mér finnst kannski ekki alveg sanngjarnt að spyrja að því. Það er svona látið að því liggja að ég þekki ekki þessa staðhæfingu, sjálfbæra þróun, en í raun kemur það fram í 1. gr. þar sem talað er um hagkvæma og sjálfbæra nýtingu vatns. Sjálfbær þróun og sjálfbær nýting hlýtur að vera sú nýting sem ekki spillir framtíðarnýtingu, sem ekki spillir auðlindinni til framtíðar. Á það vil ég leggja áherslu og ég tek undir þau orð sem hér komu fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni að auðvitað erum við ekki annaðhvort nýtingarsinnar eða verndarsinnar. Auðvitað erum við hvort tveggja, nánast öll okkar. Ég get ekki ímyndað mér annað. Ég vil a.m.k. ítreka að því er þannig varið með þá sem hér stendur.

Miðað við ýmislegt sem hér hefur komið fram er dregið í efa að þetta mál eigi að heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heyri frekar undir umhverfisráðherra. Ég mótmæli því. Með fullri virðingu fyrir umhverfisráðuneytinu fer það ekki með mál er varða nýtingu. Það eru nokkuð góð skil þarna á milli að mínu mati. Til þess að ítreka að það eru önnur lög í landinu sem varða þá þætti sem heyra undir hæstv. umhverfisráðherra segir svo í greinargerð um 2. gr., með leyfi forseta:

„Um vatn samkvæmt frumvarpinu og framkvæmdir í vatni gilda að sjálfsögðu einnig önnur lög sem varðað geta vatn, t.d. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög um mat á umhverfisáhrifum, náttúruverndarlög, raforkulög, skipulags- og byggingarlög og önnur lög sem við geta átt.“ — Mikil vinna hefur verið lögð í það að reyna að raða þessu þannig upp að við séum ekki að fara inn á valdsvið umhverfisráðuneytisins, heldur séu þarna skil á milli sem allir ættu að mínu mati að geta sætt sig bærilega við.

Síðan er talað um að það hefði verið mikilvægt að bíða eftir verndarfrumvarpi, bíða eftir vatnatilskipun Evrópusambandsins og þar fram eftir götunum. Ég sagði það í framsöguræðu minni og endurtek nú að þarna er ekki um skörun að ræða. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að við einhendum okkur í að vinna að þessari löggjöf nú og síðan er það í sjálfu sér umhverfisráðherra að svara frekar til um vatnatilskipunina vegna þess að hún heyrir ekki undir iðnaðarráðherra. Ég held að hv. þingmenn hljóti að gleðjast yfir því miðað við þær ræður sem hér hafa verið haldnar. Þvert á móti heyrir hún undir umhverfisráðherra og eflaust á umhverfisráðherra eftir að blanda sér í umræðuna og fjalla frekar um hana.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir talaði um 83. gr. gildandi laga sem ekki hefði verið fundinn staður í þessu frumvarpi. Það er rétt, það er mál sem ekki heyrir undir iðnaðarráðherra og því er að einhverju leyti tekið á þeim ákvæðum í lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir en ekki að fullu. Að sjálfsögðu verður þetta eitt af því sem er hægt að fara betur yfir í nefndinni en ég tel að þetta sé ekki það veigamikið atriði að ástæða sé til að fresta löggjöfinni þess vegna.

Það er talað um rammaáætlun og að hún rykfalli og það ætti að taka hana úr höndum iðnaðarráðherra. Það er engu að síður svo að hafið er starf við II. áfanga rammaáætlunar og nú sem áður heldur Sveinbjörn Björnsson utan um það. Ég vil nota tækifærið núna þó að það sé ekki alveg tengt þessu máli og segja að ég hef tekið eftir og heyrði það síðast í spjallþætti í gær að talað hefur verið um rammaáætlun sem rammaáætlun Landsvirkjunar og á því korti sem dreift hefur verið af hálfu samtaka sem ég þori ekki að fara með á þessari stundu hver eru segir að þetta sé rammaáætlun Landsvirkjunar. Öll þau fljót og vatnsföll sem hér falla til sjávar voru merkt sem fjallað er um í rammaáætlun og látið að því liggja að það sé á dagskrá Landsvirkjunar að virkja þessi fljót og þessar ár. Það er náttúrlega rangt því að rammaáætlun gengur út á það að lista upp þessa orkumöguleika alveg án tillits til þess hvort þeir verða einhvern tíma nýttir til orkuframleiðslu. Þetta er fyrst og fremst vinna sem er til hagræðingar fyrir m.a. orkufyrirtæki og í sambandi við skipulagsmál og það er hægt að sjá kosti og galla þess að virkja viðkomandi ár en hún er ekki stefnumótandi sem slík.

Ég vildi bara koma því á framfæri að það var mjög alvarlegur misskilningur sem kom fram hjá þáttarstjórnanda á Skjá 1 í gær.

Ég veit ekki hvort það er svo margt fleira sem í raun hefur komið fram í máli hv. þingmanna. Að vísu kom hv. þm. Mörður Árnason inn á það að verið væri að færa grunnvatnið undir valdsvið iðnaðar- og viðskiptaráðherra með þessu frumvarpi. Það er er ekki rétt því að iðnaðarráðherra veitir í dag leyfi til rannsókna og nýtinga á grunnvatni á grundvelli laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Að sjálfsögðu er eðlilegt að stofnun okkar, stjórnsýslustofnun, Orkustofnun, hafi þarna miklu hlutverki að gegna vegna þess að málaflokkurinn heyrir undir iðnaðarráðherra.

Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi ekki fleiri orð um þetta að sinni en á eflaust eftir að blanda mér inn í umræðuna aftur síðar.