131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:46]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði að það væri ekki óeðlilegt að Orkustofnun sæi um grunnvatn vegna þess að það væri á málasviði iðnaðarráðherra. Ég set fram efasemdir um að það sé á málasviði iðnaðarráðherra.

Að vísu er til í lögum, eins og ráðherra nefndi, heimild til iðnaðarráðherra um að gefa leyfi til nýtingar. Ég tel að við eigum að taka þetta upp. Ég tel að hér sé í raun og veru um það að ræða að við eigum að taka þetta mál upp í heild sinni, ekki bara grunnvatnið, og að þetta eigi að fara undir umhverfisráðherra og þær stofnanir sem hann hefur. Orkustofnun er hreinlega ekki sá stakkur skorinn að hún hafi efnislegt umboð til þess að fara með þetta mál. Orkustofnun sem á bæði að vera stjórnsýslustofnun og hafa eftirlit með framkvæmdum á sínu sviði er fyrst og fremst — og því verður þá mótmælt ef það er ekki rétt — búin starfsliði sem fer fram með það markmið Orkustofnunar að stjórna nýtingu, atvinnurekstri á þessu sviði. Umhverfisþáttur Orkustofnunar er því miður ekki mikill og það er auðvitað vegna þess að um þau mál fjallar önnur stofnun sem heitir Umhverfisstofnun. Hún er undir umhverfisráðherra. Við erum kannski bara ósammála um þetta. Ég tel að þetta sé svona og ætla ekki að standa í lagaþrasi um það. Vel getur verið að við 2. umr. verði ég betur búinn til þess með grunnvatnið en ég segi að hvernig sem málið stendur í lögum er fullkomlega óeðlilegt að iðnaðarráðherra stjórni öllu vatni á landinu og að sú stjórn sé inni í Orkustofnun. Hún er ekki sú stofnun sem við höfum byggt upp til þess að fjalla um auðlindastjórnun og auðlindanýtingu almennt, og allra síst að taka inn umhverfisþáttinn sem þar hlýtur að vega hvað þyngst.