131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:11]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir og er til umfjöllunar er að fela hæstv. félagsmálaráðherra að skipa nefnd til að undirbúa viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak í þessu efni. Það er málið sem er til umfjöllunar. Það mál styð ég að sjálfsögðu vegna þess að ég tel að það sé næsta stóra átakið sem við eigum að fara út í í þessum efnum. Það væri nær að sá þingmaður sem hér stendur kæmi upp og lýsti efnislegri afstöðu sinni til málsins. Er hann þeirrar skoðunar að við eigum að fara í þessa vegferð eða er hann ekki þeirrar skoðunar?

Það kemur auðvitað ekkert málinu við með hvaða hætti Reykjavíkurborg breytti gjaldskrá sinni sem var í þá átt að búa til eina gjaldskrá fyrir námsmenn þar sem báðir eru í námi en fella niður þar sem annar var í námi. Það er bara eins og tíðkast í öðrum sveitarfélögum og það var sú breyting sem gerð var og þingmaðurinn kallar 42% hækkun. (Gripið fram í.) Ákveðið var að sú hækkun kæmi í áföngum og það kom engin 42% hækkun á þessa námsmenn núna við þessa fjárhagsáætlun. Það er einfaldlega rangt hjá þingmanninum og hann ætti að kynna sér það betur. (Gripið fram í.)

Málið er auðvitað að fá afstöðu þessa hv. þingmanns til þessa máls. Telur hann rétt að fara í þá átt að sveitarfélögin og ríkið taki upp viðræður um gjaldfrjálsan leikskóla eða er hann ekki þeirrar skoðunar? Ætlar hann bara að standa hér og baða sig í einhverjum deilum sem áttu sér stað í borgarstjórn Reykjavíkur? Svari nú hinn ágæti þingmaður.