132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:26]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyrði að hv. þingmaður átti í nokkrum erfiðleikum með að svara þessu. En af því að hann kemur inn á raforkuverðið þá langar mig að koma hér fram með staðreyndir sem varða raforkuverðið og vísitölu neysluverðs, sem hækkaði frá janúar 2204 til janúar 2006 úr 128,9 stigum í 139,9 stig. Það gerir 8,5% hækkun. Ef rafmagnshluti neysluverðs vísitölunnar er borinn saman við þetta kemur í ljós að sá hluti hækkaði úr 115, 5 stigum í 123,7 stig á sama tíma, eða um um það bil 7,1%. Rafmagnsverðið hefur sem sagt hækkað minna en neysluvísitalan. Þetta eru staðreyndir sem eru gefnar út af Hagstofunni þannig að það er ekki hægt að vefengja það að mínu mati.

Við skulum taka frekari umræðu um raforkuverð hér síðar. Ég vona að það geti orðið fljótlega þegar raforkuskýrslan mín verður tekin til umfjöllunar. En hv. þingmaður hleypur gjarnan í þetta skjól þegar hann er kominn í vandræði í röksemdafærslu sinni í sambandi við byggðamál. Ég vil bara endurtaka að við erum að gera ágæta hluti í byggðamálum. Við höfum náð árangri á landinu öllu, mismiklum þó. Það eru svæði sem þarf að horfa sérstaklega á og það er verið að því. En það er ekki alltaf augljóst hvaða meðul duga. Það skiptir mestu máli að fólkinu líður betur og það hefur betri afkomu á landsbyggðinni en verið hefur í mjög langan tíma. Ég tel því — með fullri virðingu fyrir hæstv. forsætisráðherra, þeim sem við eigum núna, ég treysti honum betur fyrir byggðamálunum en mörgum öðrum — að þessi málaflokkur eigi að vera í iðnaðarráðuneytinu. Iðnaðarráðuneytið fer með stóran hluta atvinnumála, stærstan hluta vil ég meina, allar þær nýjungar sem eru að koma inn og af verkum okkar má vera ljóst að við höfum staðið okkur vel.