132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:34]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og heyri að hann tekur undir með okkur í Frjálslynda flokknum um að þær tillögur sem hæstv. iðnaðarráðherra ber hér fram séu ófullnægjandi. Það var ekki heldur að heyra að hann viki mjög að skýrslunni enda er hún mjög ómerkileg og borin hér upp í þriðja sinn óbreytt. Ég vil lýsa ákveðinni furðu á því að hæstv. iðnaðarráðherra sé ekki hér við og hlýði á. Vegna þess að þetta er gagnrýni frá hennar eigin flokksmanni, frú forseti. Mér finnst það vera stórundarlegt að hún skuli ekki vera hérna í salnum og svara fyrir.

En ég ætla að spyrja hv. þingmann út í að hann segir að það verði að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Það kom hér fram í ræðunni og við erum sammála um það. En við í Frjálslynda flokknum höfum rakið það hér að hann hafi stutt breytingar til hins verra fyrir atvinnulíf á Vestfjörðum og greitt því þung högg þegar hann aflagði sóknardagakerfið. Þess vegna vil ég spyrja, og mér finnst það vera sanngjarnt að hann svari því vegna þess að hann hefur forðast það eins og heitan eldinn að svara málefnalega hvers vegna hann reiddi til höggs. Hvað vill hann í staðinn?