132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk engin svör núna frekar en fyrr í vikunni um hvað hv. þm. Sigurjón Þórðarson vildi gera til að komast út úr þeim ógöngum sem kerfið var komið í. Það var alveg vitað þegar farið var úr sóknarstýringu í aflamarksstýringu að menn mundu hætta að keppast við að veiða sem mest magn af fiski yfir sumarið og reyna þá að færa sig á aðrar veiðislóðir og veiða stærri fisk á haustin þegar hærra fiskverð var og fleira í þeim dúr. Menn vissu því að breytingin mundi leiða af sér öðruvísi veiðimynstur, öðruvísi afla og annað slíkt og þá fara menn að veiða til að hámarka tekjurnar sem þeir hafa af fiskinum. Ég veit um marga útvegsmenn sem voru í smábátakerfinu og notuðu tækifærið þegar þessu var breytt til að styrkja útgerð sína, setja aukinn kraft í hana og kaupa veiðiheimildir. Það eru mörg dæmi um það, virðulegi forseti. Það hefðu menn ekki getað gert í óbreyttri stöðu. (Gripið fram í.) Það eru tölur sem voru á ákveðnum tímapunkti. Við skulum nú bara spyrja að leikslokum hvernig staðan verður t.d. ári síðar. Því það er alveg ljóst að menn selja ekki bara heldur kaupa líka veiðiheimildir, alveg eins og menn hafa bæði selt veiðidaga og keypt þá. Svo það er ekkert óbreytanlegt heldur þótt menn hefðu verið í óbreyttu kerfi.

Best væri auðvitað að hafa almennt kerfi þar sem allir færu eftir sömu leikreglum. Að hafa sérúrræði eins og við höfum stuðst við er til marks um að við erum með almennt kerfi sem er verulega gallað en menn eru að reyna að sníða gallana af með einhverjum sérúrræðum. Það er langbest að breyta almenna kerfinu svo það þurfi ekki að vera með sérúrræði til að bregðast við (Forseti hringir.) vondum áhrifum sem fylgja göllum sem í því eru.