132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nefnilega athyglisverðar tillögur sem koma fram í þessari skýrslu frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, sem var birt í nóvember sl., að einmitt á þeim svæðum þar sem hallar undan fæti eigi menn að líta á þá aðgerð að setja hömlur á flutning veiðiheimilda, taka á sjávarútveginum sjálfum sem er svona stór undirstaða í þessum byggðarlögum og það verði að gera með þessu atriði.

Í öðru lagi með því að setja fjármagn og afl í að byggja upp aðrar atvinnugreinar til að styrkja grundvöllinn fyrir umrædd byggðarlög.

Í þriðja lagi það sem er að finna á bls. 59 í skýrslunni, að auka umsvif hins opinbera á landsbyggðinni og þar með talið þessum svæðum líka, bæði með því að flytja verkefni og störf en líka, eins og hér er lagt til, með skattaívilnunum til að vega þá á móti efnahagslegu misvægi eftir búsetu sem hefur verið að vaxa eins og kemur fram í gögnum sem lögð eru fyrir okkur við þessa umræðu, bæði í þingsályktunartillögunni sjálfri og skýrslunni um framkvæmd fyrri áætlunar.

Mér finnst því að menn eigi að horfa miklu meira á þær tillögur sem er að finna í skýrslunni en það sem fram kemur í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir okkur. Mér finnst eiginlega vanta inn í þá tillögu að tekið sé meira tillit til þeirra tillagna sem er að finna í þessari merku skýrslu, Landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins. Ég vil hvetja þá sem fá málið til meðferðar í þingnefnd til að líta á þær tillögur sem hér er að finna og gaumgæfa þær og velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að ná samstöðu um að styrkja þá tillögu sem fyrir okkur liggur með tillögum úr þessari skýrslu.