133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

bættir innheimtuhættir.

482. mál
[15:51]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn um innheimtuhætti frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og þakka ágæt svör hæstv. ráðherra. Ég tel að löngu sé tímabært að setja lög um innheimtu eins og t.d. Neytendasamtökin hafa óskað eftir. Það er víst nógu erfitt fyrir fólk að lenda í stöðu skuldara þótt það síðan sé ekki háð geðþóttaákvörðunum lögfræðinga hversu háar innheimtukröfur lenda á skuldaranum. En það er athyglisvert að heyra, frú forseti, hvernig fór fyrir frumvarpinu um innheimtu á Alþingi fyrir 10 árum og ég tel nokkuð ljóst að Lögfræðingafélag Íslands hefur mjög góð tök í Sjálfstæðisflokknum.