136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lengd þingfundar.

[10:40]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða sem hér fer fram um störf þingsins og lengd þingfunda. Það er hins vegar þekkt og hefur tíðkast í mörg ár að á þessum tíma er oft mikið álag og oft á tíðum er það þannig að það þarf að ljúka við mál fyrir áramót. Ég segi það fyrir mitt leyti að ef þingmenn eru ekki tilbúnir að vera fram yfir miðnætti þá finnst mér það í sjálfu sér vel þess virði að skoða en þá verðum við einfaldlega að vera lengur eftir helgina og ekki mæli ég því í mót. En það er alveg ljóst að það þarf að klára ákveðin mál fyrir áramót og þingið verður að taka þann tíma sem það þarf í það og ef við þurfum að vera fram eftir þá er ég tilbúinn í þá vinnu. Ég er líka tilbúinn í þá vinnu eftir helgi og ég vænti þess að stjórnarandstaðan sé það einnig.

Virðulegi forseti. Mér finnst að virðulegi forseti hafi allar heimildir til að ákveða hversu lengi þessi þingfundur stendur.