140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð. Frumvarpið felst í meginatriðum í því að lögð er til breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á tímabilinu 1. apríl 2012 til 31. desember 2012 skal fjárhæð olíugjalds í 4. mgr. 1. gr. laganna nema 19,88 kr. í stað 54,88 kr.“

Þá leggjum við breytingar á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á tímabilinu 1. apríl 2012 til 31. desember 2012 skal fjárhæð vörugjalds í 14. gr. laganna nema 4 kr. í stað 24,46 kr. og í 1. mgr. 15. gr. laganna skal fjárhæð bensíngjalds af blýlausu bensíni vera 28,51 kr. í stað 39,51 kr.“

Ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram er að undanfarið hafa olía og bensín hækkað gríðarlega mikið. Það má meðal annars rekja til þess að í vetur hafa verið miklir kuldar í Evrópu og jafnframt hefur verið mikill órói. Það er komið útflutningsbann til einhverra landa frá Íran og horfir ófriðlega þar sem hefur leitt til mikillar óvissu um þróun eldsneytisverðs í heiminum.

Sú óvissa kemur fram í hækkun olíuverðs á heimsmarkaði og þar með innflutningsverði hér á landi. Þar sem hlutur eldsneytis er gríðarstór hluti í neyslu heimilanna, 7–8%, telja flutningsmenn mjög æskilegt að lækka bensín- og olíuverð. Flutningsmenn vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og hafa þetta tímabundna aðgerð en á hausti komanda verði þessi mál gaumgæfð frekar og athugað hvort jafnvel eigi að framlengja lækkunina.

Við vitum að fólk nær að einhverju leyti að bregðast við olíuverðshækkunum með því að draga úr eldsneytisnotkun, sérstaklega til lengri tíma litið. Þá fer fólk yfir í sparneytnari bíla, notar kannski almenningssamgöngur meira o.s.frv. Á síðustu þremur árum hefur umferð minnkað mikið, gríðarlega hefur dregið úr henni og eldsneytisnotkun að sama skapi þannig að komið er að sársaukamörkum þar. Sem dæmi minnkaði umferð á milli áranna 2010 og 2011 um 6,6% samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar. Til lengri tíma litið skipta heimilin yfir í sparneytnari bifreiðar og yfir í ódýrari og fjölbreyttari orkugjafa, svo sem eins og metan, rafmagn og vetni. En slíkt er ekki hægt að gera til skamms tíma litið þannig að annaðhvort gerist það að olíuverð lækkar í framtíðinni eða að notkun á eldsneyti mun minnka mikið.

Lækkun skatta á eldsneyti leiðir beint til hækkunar á ráðstöfunartekjum og þannig til aukinnar einkaneyslu og hagvaxtar. Það leiðir líka til þess að vísitala neysluverðs lækkar, sem hefur aftur áhrif á höfuðstól verðtryggðra lána hjá heimilum og fyrirtækjum og afborganir af þeim. Áhrif aðgerðarinnar sem hér er lögð til, skattalækkunarinnar, bein og óbein, væru veruleg og mundu leiða til jákvæðra áhrifa á hagvöxt væntanlega. Fram undan er mesti álagstími ferðaþjónustunnar og lækkun eldsneytis mundi virka eins og vítamínsprauta á greinina. Áhrifin mundu einnig leiða til lækkunar á flutningskostnaði og vöruverði.

Öllu gamni fylgir nokkur alvara. Í frumvarpinu er ekki lagt fram mat á því hversu miklum tekjum ríkissjóður yrði af við lækkunina en í nýju mati metur fjármálaráðuneytið það svo að tekjutap ríkissjóðs verði á milli 9 og 10 milljarðar, 12 til 14 á ársgrundvelli, 9 til 10 milljarðar á því mánaðabili sem hér er lagt til frá 1. apríl. Þetta eru þá auknar ráðstöfunartekjur heimilanna og heimilin eyða því þá í annað. Er áætlað að það leiði til skattheimtu annars staðar í hagkerfinu í gegnum bæði beina og óbeina skatta sem gætu kannski numið helmingi af þessari upphæð. Þá gæti tekjutap ríkissjóðs verið um 4,5 til 5 milljarðar. Síðan eru aukin umsvif sem verða í hagkerfinu í kringum þetta sem gætu verið 1 til 2 milljarðar í viðbót og auk þess önnur eftirspurnaráhrif.

Lausleg áætlun leiðir í ljós að þetta gætu verið 2 til 3 milljarðar í tekjutap fyrir ríkissjóð en í kringum 9 til 10 milljarðar í auknar ráðstöfunartekjur fyrir heimilin og munar um minna á þessum síðustu og verstu tímum.

Það er því mat flutningsmanna að þær ráðstafanir sem hér eru kynntar séu skuldugum heimilum, þar sem ráðstöfunartekjur hafa lækkað mikið undanfarið, til mikilla hagsbóta. Við leggjum til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar til frekari umfjöllunar.