140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[18:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mælt er fyrir mjög mikilvægu máli og brýnu sem ég vona svo sannarlega að hv. Alþingi afgreiði fljótt og vel. Þetta er eitt af þeim málum þar sem við getum, ef við tökum okkur saman, breytt hlutum þannig að það komi heimilunum og fjölskyldunum í landinu til góða og það strax.

Ég verð að segja að í ljósi allrar þeirrar umræðu sem orðið hefur hér að undanförnu um stöðu heimilanna í landinu og fyrirtækjanna, af því að hátt eldsneytisverð hefur að sjálfsögðu líka áhrif á fyrirtækin í landinu, ber okkur í þessum sal hreinlega skylda til að líta til allra leiða sem við höfum yfir að ráða til að koma til aðstoðar þar sem við getum.

Farið hefur verið vel yfir það frumvarp sem við sjálfstæðismenn leggjum hér fram með Tryggva Þór Herbertsson sem 1. flutningsmann. Mig langar aðeins að segja vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið og þeirra viðbragða sem þetta mál hefur fengið hjá ríkisstjórnarflokkunum, ég veit hreinlega ekki til þess að nokkur stjórnarþingmaður hafi talað jákvætt um málið og mér þykir það mjög miður vegna þess að hér er ekki hægt að segja að við séum að leggja til einhverjar óábyrgar skattalækkanir eins og menn tala gjarnan um, heldur erum við að bregðast við ástandi sem við höfum tæki og tól til að bregðast við. Við höfum sýnt það áður þegar við höfum haft stjórnina, þegar við höfum verið við stjórnvölinn, að þetta er einmitt tæki sem við höfum gripið til. Það var nefnt áðan í andsvari að frumvarp sem lagt var fram árið 2002 af þáverandi fjármálaráðherra Geir H. Haarde, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, væri um nákvæmlega sama mál, að lækka skatta á eldsneyti til að draga úr áhrifum hækkandi heimsmarkaðsverðs á þeim tíma. Þetta var gert tímabundið til að taka af ákveðinn kúf sem fyrirsjáanlegur var.

Það er mjög athyglisvert að skoða viðbrögð þáverandi stjórnarandstöðu, núverandi forkólfa ríkisstjórnarinnar, vegna þess að ég get ekki séð sömu vandamálin og þau sjá í þessu frumvarpi eða að þau hafi haft jafnmiklar áhyggjur af þessu á þeim tíma, því að helstu rök þeirra og áhyggjur í umræðunni, sem meðal annars má sjá í breytingartillögu og nefndaráliti, voru að þetta gilti ekki nógu lengi. Hæstv. núverandi forsætisráðherra og þáverandi þingmaður, Jóhanna Sigurðardóttir, hafði forgöngu um það og hún og hæstv. núverandi utanríkisráðherra lögðu fram breytingartillögu um að þetta gilti ekki til loka júnímánaðar eins og fjármálaráðherra mæltist til, heldur gilti út nóvember og/eða að fjármálaráðherra fengi heimild til að framlengja þetta fram yfir þá dagsetningu sem þarna um ræddi. Það er athyglisvert að lesa þær ræður sem fluttar voru þá, að það sé brýnt að allir leggi sig fram um að draga úr þessum hækkunum og heimilin í landinu eigi það skilið að hér leggist allir á eitt og einnig að það sé mjög óvarlegt að láta þetta gilda í svo stuttan tíma.

Áhyggjur þingmanna í stjórnarandstöðunni á þeim tíma yfir þeim tekjumissi sem ríkissjóður yrði fyrir voru ekki jafnmiklar og núna. Á þeim tíma kostaði þetta nokkra fjármuni, 80–100 millj. kr., en að framlengja þetta lengur en lagt var til í upphafi var ekki stóra áhyggjuefnið þá. Ég held að ef menn skoða frumvarp okkar núna sjái þeir að það er ekki bara gerlegt heldur er fordæmi fyrir þessu. Menn ættu kannski að kíkja á rökin sem þeir höfðu gegn þessu á sínum tíma og athuga hvort það breyti ekki viðhorfi þeirra til þessa máls vegna þess að ef þörf var á slíku árið 2002 þá er þörf á því núna. Við erum að horfa á tímann fram undan þar sem eins og venjulega er búist við aukinni umferð í ferðaþjónustunni og við sjáum af tölum að heimilin eru komin að þolmörkum og fólk er farið að spara verulega við sig í akstri. Einnig hefur þetta að sjálfsögðu þau áhrif á vísitöluna að verðtrygging lána bítur meira en ella.

Ég er mjög ánægð með að þetta mál hafi komist á dagskrá í dag og það náðist að mæla fyrir því. Ég vona að það verði tekið til skjótrar og ítarlegrar umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd á nefndadögum í næstu viku og ég trúi ekki öðru, þegar fólk fer að skoða þetta jákvætt og af sanngirni, en að við náum að vinna málinu brautargengi í þinginu.