141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Með Hagavatnsvirkjun er ætlunin að endurheimta fyrra horf Hagavatns. Þessi virkjun hefur þá sérstöðu að hún varð á sínum tíma til sem eins konar viðbragð við sandfoki og uppblæstri. Ætlunin er að reyna að auka möguleika á landgræðslu.

Eins og við vitum byggir tillaga hæstvirtra ráðherra um vernd og orkunýtingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og þar er bókstaflega gert ráð fyrir því, eins og frægt er orðið, að hæstv. ráðherrar leiti eftir umsögnum, leiti eftir skoðunum sem flestra á þeim drögum að þingsályktunartillögu sem lágu fyrir. Þær upplýsingar og umsagnir sem komu í kjölfarið benda allar til þess að það sé eðlilegt að fara í þessa virkjun. Það eru sjónarmið heimamanna, landeigenda og ferðamálafólksins, það eru í raun þau yfirgnæfandi sjónarmið sem ættu að liggja til grundvallar því að gera tillögu um þessa virkjun í nýtingarflokk. Þess vegna er (Forseti hringir.) mjög undarlegt ef þessi hugmynd verður felld á Alþingi.