145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

afnám verðtryggingar og þjóðaratkvæðagreiðslur.

[14:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er svo sérstakt hvað forsætisráðherra getur aldrei svarað spurningum heldur fer alltaf að túlka spurningarnar í staðinn fyrir að svara þeim, virðingarleysi hæstv. forsætisráðherra gagnvart þinginu er alveg með ólíkindum.

Það er nú svo að þessi nefnd er á forræði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hefur staðið í vegi fyrir því að nefndin geti skilað af sér, nú síðast á fundi nefndarinnar þegar í ljós kom að það hafði verið tillaga frá Framsóknarflokknum um að draga til baka málskotsrétt forseta í tengslum við tillögur um þjóðaratkvæði. Svo mikil er ást Framsóknarflokksins á hinu beina lýðræði að það á að setja himinháa þröskulda sem gera lýðræðið nánast ómögulegt og á sama tíma leggja til að taka málskotsréttinn af forseta. Síðan er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra stóð með beinum hætti í vegi fyrir því að hægt væri að klára þetta mál þannig að við gætum farið í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Og enn eru lappirnar dregnar. Við skulum ekki gleyma því að hæstv. forsætisráðherra gat ekki einu sinni skipað fulltrúa Bjartrar framtíðar í nefndina svo mánuðum skipti. Þetta er náttúrlega bara skrípaleikur og skammarlegt, forseti.