145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

uppbygging og rekstur fráveitna.

404. mál
[14:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009.

Frumvarpið er samið af vinnuhópi sem í voru fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá er jafnframt byggt á vinnu Trausta Fannars Valssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, varðandi þær kröfur sem dómstólar hafa gert til lagasetningar og skilyrða um þjónustugjöld.

Upphaf þessarar vinnu er sú að Samorka og Samband íslenskra sveitarfélaga sendu umhverfis- og auðlindaráðherra og innanríkisráðherra sameiginlegt erindi um mitt ár 2013. Í erindinu var þess óskað að nauðsynlegar lagabreytingar yrðu gerðar er varðar skyldu húseiganda til þess að tengjast veitustofnunum sveitarfélaga og greiða fyrir það lögbundin þjónustugjöld. Breytingarnar eru í samræmi við úrskurði innanríkisráðuneytis og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fékk sambærilegt erindi frá Samorku 28. ágúst 2012. Við skoðun á málinu í ráðuneytinu var ljóst að til bóta væri að skerpa á tilteknum ákvæðum í lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Megintilgangur frumvarpsins er því að skýra réttindi og skyldur fráveitna hvað varðar grundvöll gjaldtökuheimilda. Skýrt er kveðið á um að heimilt verði að heimta gjald af öllum fasteignum sem tengjast fráveitu sveitarfélaga og þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar. Auk þess kemur til viðbótargjald vegna losunar. Einnig er lagt til að sett verði ákvæði um hámarksgjald sem er tiltekið hlutfall af heildarfasteignamati. Í þeim tilfellum þegar matsverð liggur ekki fyrir en tenging er fyrir hendi verði heimilt að ákveða fráveitugjaldið með hliðsjón af áætluðu fasteignamati.

Geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að útilokað sé að tiltekið mannvirki á fasteign muni tengjast fráveitu vegna landfræðilegra eða tæknilegra ástæðna eða vegna eðlis mannvirkis getur hann þó beint erindi til fráveitu um að álagning fráveitugjalds taki mið af því. Þá skulu hlunnindi, ræktarland og önnur sérstök fasteignaréttindi sem skilgreind eru sem hluti fasteignarinnar og mynda umtalsverðan hluta af matsverði vera undanþegin við álagningu fráveitugjalds. Með þessu er betur mætt því sjónarmiði um töku þjónustugjalda að endurgjald notandans taki mið af þeirri þjónustu sem veitt er. Einnig er kveðið á um að heimilt verði að ákveða fráveitugjald miðað við fast gjald auk álags vegna rúmmáls eða flatarmáls allra mannvirkja á fasteign og/eða notkunar samkvæmt mæli.

Loks er lögð til breyting í þá veru að stjórn fráveitu verði skylt að yfirtaka eina tengingu við fráveitu frá safnkerfi að lóðamörkum sveitarfélagsins sé þess óskað og séu aukatengingar til staðar þá skuli þær tilheyra áfram viðkomandi fasteign.

Í meginatriðum er um að ræða efnislega samhljóða breytingar og í frumvarpi um breytingu á lögum nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga, sem innanríkisráðherra leggur fyrir Alþingi hér á eftir og eru frumvörpin því flutt samhliða.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.