145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

landlæknir og lýðheilsa.

397. mál
[14:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er sjálfsagt rétt og skylt að fara yfir það hvort betur megi búa um fyrirkomulag lýðheilsusjóðs, áður forvarnasjóðs. En það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir að einhver sérstök vandamál eða álitamál hafi yfirleitt verið þar uppi. Ég minnist þess ekki að hafa rekist á það eða heyrt að ekki væri almenn sátt um það hvernig þeim takmörkuðu fjármunum sem þar hafa verið til úthlutunar hefur verið varið, enda mjög vel um það búið að mínu mati í núverandi fyrirkomulagi, þar sem fulltrúar fagráðherra landlæknisembættisins og tveir fulltrúar frá embættinu sitja í stjórn og taka ákvarðanir um þessar úthlutanir. Faglegra verður það nú varla en í núverandi fyrirkomulagi.

Þegar sagt er að áfram verði faglega unnið að þessari úthlutun, þá ætla ég ekkert að draga það í efa að þriggja manna stjórn komi með slíkar tillögur til ráðherra, þar af einn frá landlæknisembættinu og annar frá heilbrigðisvísindasviði háskólans. En það má segja að enn meiri breidd hafi verið í aðkomunni að málinu í núgildandi fyrirkomulagi með fjórum fulltrúum fagnefnda innan landlæknisembættisins og tveimur frá embættinu sjálfu.

Í öðru lagi staldra ég aðeins við þá röksemdafærslu frumvarpsins að með þessu verði fyrirkomulagið fært í betra samræmi við áherslur Alþingis frá árinu 2011, með því að tryggja aukið gagnsæi að því marki sem þetta gerir það. En ég hef ekki lagt þann skilning í, og lagði ekki á sínum tíma, að Alþingi væri, með þeirri ákvörðun að færa safnliðina yfir til ráðuneytanna og hætta að láta fjárlaganefnd sitja yfir því að útdeila fáeinum hundruðum þúsunda eða milljónum á tugi smáliða, að gera athugasemdir við að öðru leyti meðferð opinberra fjármuna í styrktarsjóðum og öðru slíku. Enda byggir það yfirleitt á ákvæðum í sérlögum o.s.frv.

Það var fyrst og fremst verið að færa það úthlutunar- eða skiptingarvald sem hafði verið á borði fjárlaganefndar yfir í ráðuneytin á viðkomandi málasviðum. En ég minnist þess ekki að í þeirri umræðu hafi verið undirtónn sem fæli í sér gagnrýni á hlutverk lögbundinna sjóða og stjórna þeirra eða úthlutunarnefnda þar sem þær væru starfandi. Mér finnst þannig pínulítið langt seilst að sækja sérstaklega rök í þessa breytingu fyrir því að færa úthlutunarvaldið frá stjórn lýðheilsusjóðs inn í ráðuneytið þannig að það sé ráðherra sjálfur, að vísu á grundvelli tillagna frá sjóðnum, sem gerir það. Ég hef ekkert kannað hug Alþingis til þess en ég leyfi mér að efast um að það sé endilega meiri stuðningur við það að í fyrirkomulagi af þessu tagi færist úthlutunarvaldið frá lögbundinni skipan mála í sjóði með faglega skipaðri stjórn inn í ráðuneytið sjálft.

Það má velta vöngum yfir því hvað sé þá orðið eftir af hlutverki stjórnar lýðheilsusjóðs. Er hún orðin mikið annað en reikningsnúmer með því að úthlutunarvaldið færist inn í ráðuneytið? Þarf þá í sjálfu sér stjórn fyrir sjóðinn? Væri ekki alveg eins gott að hafa í lögunum ákvæði um ráðgefandi fagráð sem ynni tillögurnar um úthlutun styrkjanna til ráðherra sem tekur hina endanlegu ákvörðun? Það er á mörkunum, finnst mér, að það standi undir nafni að tala þarna um stjórn lýðheilsusjóðs þegar úthlutunarvaldið er farið þaðan og eftir stendur þá bara að passa upp á sjóðinn og gera svo tillögur til ráðherra um úthlutun. Mér finnst sem sagt ekki alveg sjálfgefið að þetta sé að öllu leyti til bóta og áskil mér rétt í þeim efnum að skoða það.

Hæstv. ráðherra tók fram, sem ljóst má vera af frumvarpinu, að það breytir engu um núverandi fjármuni sem til ráðstöfunar eru í þessum efnum það 1% af áfengisgjaldi, ef ég man rétt, og hlutfall af brúttósölu tóbaks sem rennur til sjóðsins í dag helst þá óbreytt. En það væri nú fróðlegt í leiðinni að heyra viðhorf ráðherra til þess hver sé afstaða hans til að þessi starfsemi verði efld.

Það vill svo til að á borðum þingmanna eru tvö frumvörp sem gera bæði ráð fyrir því. Það er annars vegar frumvarp sem undirritaður flytur, bara sjálfstæð ákvörðun um það, af því að það virðist vera stemning fyrir því meðal ýmissa þingmanna að hækka hlutfall áfengisgjalds í forvarnasjóð eða lýðheilsusjóð, og hins vegar frumvarp um brennivín í matvöruverslanir.

Það vill svo til að þá er allt í einu mikill áhugi hjá ákveðnum þingmönnum um að stórhækka framlög til lýðheilsusjóðs gegn því að menn fái brennivín í matvörubúðir. Ég vildi nú helst aftengja þessi mál og ræða þetta á þeim forsendum: Er hljómgrunnur fyrir því hér á þingi og hvað segir hæstv. ráðherra um það óháð öllu öðru, og þá ætti það mjög vel heima í frumvarpi af þessu tagi, sem einmitt fjallar um fyrirkomulag lýðheilsusjóðs, að sækja þarna inn í þetta eitthvað meiri fjármuni? Þó það væri ekki nema tvöföldun gjaldsins og jafnvel í skrefum mundi það efla þessa starfsemi umtalsvert.

Það fylgja ekki beint með gögn um eftirspurnina, umfang umsókna og að hve miklu leyti hefur verið hægt að mæta þeim á undanförnum árum, mat á þörfinni. Þau getum við að sjálfsögðu sótt okkur í hv. nefnd. En mér finnst ástæða til að þetta verði þá skoðað í leiðinni og væri fróðlegt að heyra viðhorf ráðherra til þess svona í framhjáhlaupi hvort ráðherrann sé þeirrar skoðunar að það sé þá eingöngu, ef menn breyta fyrirkomulagi á sölu áfengis, sem ástæða sé til að huga að og efla lýðheilsustarfið eða hvort það gæti átt rétt á sér sem sjálfstætt mál.