146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:43]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að við ræðum loksins utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar í þinginu, ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með sína fyrstu skýrslu í alþjóða- og utanríkismálum og þakka starfsfólki utanríkisráðuneytisins fyrir vinnu þess. Fyrir það fyrsta lýsir ráðherra því yfir í inngangi skýrslunnar að hin lögbundna skýrsla sé ekki hefðbundin heldur veiti fremur yfirlit yfir stöðu utanríkismála og helstu atburði á þeim vettvangi síðustu 12 mánuði. Í skýrslu hæstv. ráðherra er því miður oft og tíðum yfirlit yfir það sem liðið er í stað þess að veita innsýn í framtíðarsýnina. Það væri til að mynda fróðlegt fyrir okkur hér að sjá í yfirlitinu hvaða erlenda ráðamenn hæstv. ráðherra hefur hitt frá því að hann tók við embætti, hvað var rætt og hvað kom gagnlegast út úr þeim fundum að mati hæstv. ráðherra.

En rýnum í þau áhersluatriði sem þó er að finna í skýrslunni því að um það á hin pólitíska umræða að snúast í þingsal í dag. Í upphafsorðum skýrslunnar kemur fram að gengið sé út frá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár þegar kemur að því að sýna markmið, mælikvarða og aðgerðir á greinargóðan hátt. Vandamálið er að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er afar óskýr, með óljósa markmiðssetningu og að mælikvarðar á málefnasviði ríkisins á borð við utanríkismálin eru lítt útfærðir og rökstuddir. Það er nefnilega málið, virðulegi forseti, að ekki er gerð grein fyrir því í einu línunni sem finna má í fjármálaáætlun til næstu fimm ára hvernig nýta eigi þá 2 milljarða sem bæta á við utanríkismál á næstu fimm árum, í hvað nákvæmlega þeir fjármunir eiga að fara. Í fjármálaáætluninni er ekkert fast í hendi um það. Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni, sér í lagi þegar utanríkisráðherra skrifar í upphafi sinnar skýrslu að fjármálaáætlunin sé grundvöllurinn fyrir markmið utanríkisstefnu Íslands.

En það eru önnur mikilvæg mál í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og mitt mat er að hann þurfi ekki bara að skýra þau fyrir okkur í þingsal heldur líka fyrir almenningi og samstarfslöndum okkar í þróunarmálum og þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist varðandi þróunarsamvinnu eins og til að mynda innan þróunarsamvinnunefndar OECD, svokallaðrar DAC-nefndar.

Þörfin fyrir alþjóðlega mannúðar- og þróunaraðstoð hefur sjaldan verið meiri í heiminum. Samkvæmt upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru nú yfir 65 milljónir manna á flótta undan stríði, ofsóknum, náttúruhamförum og fátækt. Flóttamannastofnunin hefur sent út neyðarkall til ríkja heims um að auka fjárframlög til mannúðarmála og þróunarsamvinnu. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir hagstæðustu efnahagslegu aðstæður Íslands frá efnahagshruninu 2008 kemur fram í fjármálaáætlun næstu fimm ára að framlög Íslands til þróunarmála bifast ekki, heldur dragast saman. Hið lága hlutfall Íslands, 0,25% af vergum þjóðartekjum, til þróunarmála er ekkert annað en hneyksli á tímum þegar efnahagsástand er jafn gott og raun ber vitni. Þetta hlutfall til þróunarmála er mun lægra en ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ætlaði sér að ná árið 2016 við mun erfiðari efnahagsaðstæður en þessi ríkisstjórn býr við nú.

Með auknu framlagi ríkja til þróunarsamvinnu má draga úr alvarlegum afleiðingum vopnaðra átaka og náttúruhamfara. Með þátttöku í þróunarsamvinnu í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna er verið að fjárfesta í uppbyggingu innviða fátækustu landa heims á sviði menntunar, auk þess að stuðla að útrýmingu fátæktar og vannæringar á grundvelli jafnréttis og sjálfbærni. Ísland hefur lengi stutt markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki myndu verja sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnumála, en minna hefur farið fyrir efndum. Ísland á að geta sett sér metnaðarfyllri markmið þegar kemur að aðstoð við fátæk og óstöðug ríki með aukinni þróunarsamvinnu og þar með uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar sínar líkt og gert hefur verið um árabil annars staðar á Norðurlöndum, en til þess þarf pólitískan vilja sem því miður er hvorki að finna hjá hæstv. utanríkisráðherra né hæstv. forsætisráðherra.

Það er líka nýr tónn og ný stefna sem kemur fram, bæði í fjármálaáætlun og í þessari skýrslu, að ríkisstjórn Íslands ætli sér að veita hluta af þeim lágu framlögum sínum til þróunarsamvinnu í aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur innan lands. Það að þeir fjármunir séu hluti af opinberri þróunaraðstoð Íslands á erlendri grundu fellur alls ekki undir almennar skilgreiningar þróunarsamvinnu og er alls ekki í samræmi við markmið Íslands í þróunarsamvinnu. Þetta er stór stefnubreyting og veldur furðu því að málefni flóttafólks og hælisleitenda falla undir verkefnasvið velferðar- og innanríkisráðuneytisins og þar má svo sannarlega auka við fjármuni.

Framlög utanríkisráðuneytisins sem eiga að renna til alþjóðastarfs vegna flóttamannavandans eiga ekki að renna til verkefna innan lands. Þau eiga að renna til alþjóðlegra stofnana. Samkvæmt útreikningum Rauða krossins renna 12–15% af heildarframlagi til þróunarmála til verkefna hér á landi. Þetta er með ólíkindum, virðulegi forseti, og óviðeigandi.

Það gætir líka ákveðins misskilnings í áherslum hæstv. ráðherra utanríkismála, að þróunarsamvinna grundvallist á og eigi að hverfast um verslun og viðskipti. Ég gagnrýni harðlega þá áherslubreytingu að velta ábyrgð íslenska ríkisins í þróunarsamvinnu yfir á einkaframtakið og einkafyrirtæki eins og lesa má í skýrslunni. Það er líka ný stefna sem þarfnast meiri útskýringar.

Varðandi framlög til þróunarsamvinnu ítreka ég að lokum að það er áframhaldandi samdráttur í þeim framlögum frá því að Alþingi Íslendinga samþykkti í þessum þingsal á vormánuðum 2013 að auka við þau framlög. Allt tal um krónutölur á ekki við þegar viðmiðin sem öll ríki heims styðjast við, og við líka, snúast um hlutfall af vergum þjóðartekjum.

Ef við viljum gangast inn á röksemdir hæstv. utanríkisráðherra og forsætisráðherra um að framlag okkar hafi aukist í krónum talið skulum við taka þá umræðu alla leið og taka inn þá gengisstyrkingu á íslensku krónunni sem átt hefur sér stað undanfarin ár, sem hefur étið upp krónutölurnar sem hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins eru svo hugleiknar.

Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að skoða hug sinn til þróunarsamvinnu, nú þegar áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands árin 2013–2016 hefur runnið sitt skeið, því að áherslur á þróunarmálin eru líka áherslur á friðarmálin. Með því að gefa meira til þróunarmála stuðlum við að friði og drögum úr ójafnvægi á fátækustu svæðum heims. Það er heldur ekki nóg að taka kröftugan þátt í HeForShe-átakinu en draga svo úr framlögum til fátækra kvenna og stúlkubarna. Það fer einfaldlega alls ekki saman. Við þurfum að halda áfram því áhrifaríka starfi Íslands í þróunarsamvinnu og í mannúðarstörfum sem hefur breytt lífi og möguleikum fólks til lífsgæða en eru ekki bara tölur á blaði.

Af því að ég er að fjalla um málefni flóttafólks og hælisleitenda verð ég að játa að ég skil ekki alveg setninguna um flóttamannavandann í fjölþjóðasamvinnu á bls. 8 í skýrslunni þar sem hæstv. utanríkisráðherra segir, með leyfi forseta:

„… einnig þarf að gera viðeigandi öryggisráðstafanir á landamærum og bregðast við komu flóttamanna og hælisleitenda.“

Hvað á hæstv. ráðherra nákvæmlega við með þessu? Það væri fróðlegt að vita það.

Varðandi öryggis- og varnarmálin er því lýst að íslensk stjórnvöld muni áfram leggja sitt af mörkum til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins, en enga útfærslu eða heildstæðar útskýringar á því er að finna í skýrslunni né í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir að framlög Íslands til NATO hafi verið aukin í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, og hér sé boðað að svo verði áfram, er ekki hægt að sjá nákvæmlega hversu mikla fjármuni Ísland ætlar sér að veita í öryggis- og varnarmál. Hvergi, og það er einfaldlega ekki boðlegt.

Hve mikla fjármuni á nákvæmlega að veita í viðhald á ratsjárkerfum á varnarsvæðinu? Hversu miklum fjármunum á að verja nákvæmlega í þær stóru varnaræfingar NATO sem eru fyrirhugaðar hér á landi í ár og á næsta ári? Af hvaða fjármagni á að taka í þessi verkefni? Eða á að hliðra til eða færa fjármagn úr öðrum verkefnum í þessi til að uppfylla þessa augljósu útgjaldaliði, t.d. úr þróunarsamvinnuverkefnum?

Hér er því lýst að öryggis- og varnarmál séu eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og hornsteinn stefnu hennar í utanríkismálum. Þá vantar að upplýsa nákvæmlega hvað átt er við með þeim staðhæfingum. Á t.d. að tryggja Landhelgisgæslunni fullnægjandi fjármuni? Er það ekki þá forgangsmál utanríkisráðherra?

Svo þarf að skýra mun betur sameiginlega yfirlýsingu Íslands og Noregs um öryggis- og varnarmál sem undirrituð var af hæstv. utanríkisráðherrum Noregs og Íslands en láðist að skýra út fyrir fram fyrir Alþingi og utanríkismálanefnd þingsins hvað hún felur í sér þrátt fyrir að í sameiginlegri blaðagrein utanríkisráðherra Noregs og Ísland, sem birtist í Morgunblaðinu 23. mars sl., hafi verið boðaðar nýjar áherslur hvað varðar samstarf í öryggis- og varnarsamstarfi Íslands og Noregs. Í þeirri blaðagrein sagði líka að hér á Íslandi værum við að „endurskoða stefnumótun og fjárframlög til öryggis- og varnarmála“.

Virðulegi forseti. Það er með öllu óviðeigandi að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki kynnt þessar endurskoðuðu áherslur í stefnumótun og fjárframlögum til öryggis- og varnarmála fyrir Alþingi Íslendinga áður en hann kynnti þær fyrir lesendum Morgunblaðsins. Hvar er áhersla hæstv. utanríkisráðherra á friðarmál og afvopnunarmál? Því miður fer lítið fyrir þeim áherslum í skýrslunni. Það er raunveruleg synd og hefur ekkert með hægri eða vinstri pólitík að gera, heldur er það friðsamleg afstaða til alþjóðamála sem við hljótum flest að geta verið sammála um. Ég auglýsi hér með eftir þeirri stefnu hjá ráðherranum og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Ég held því til haga að friðargæsla á vegum NATO er ekki það sama og friðarmál og áhersla á þau.

Að öðru stórmáli í alþjóðamálum sem snertir hagsmuni Íslands svo um munar og hvar mig og vonandi fleiri þyrstir eftir nánari sýn og stefnu ríkisstjórnarinnar og upplýsingum. Það er Brexit, útganga Bretlands úr Evrópusambandinu. Við verðum að fá að heyra nánar hvað Ísland hefur gert á þeim tíu mánuðum sem liðnir eru frá því að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu. Hvaða áherslur hafa íslenskir embættis- og ráðamenn lagt upp með á þeim fundum sem haldnir hafa verið með breskum embættismönnum? Og hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér framhald á þeim viðræðum?

Í skýrslunni er lögð áhersla á það að meginmarkmið Íslands sé að gæta að aðgangi íslenskra fyrirtækja að breskum mörkuðum og væntingar viðraðar um enn betri aðgang að breskum mörkuðum eftir Brexit en áður. Þetta finnst mér veruleg bjartsýni og því er illa svarað á hverju þessi mikla bjartsýni er byggð. Allt er varðar Brexit er almennt orðað og loðið.

Við verðum líka að leggja áherslu á aðra hluti en fisk í samræðum okkar við Breta, eins og hver framtíðarsamskipti eiga að vera á sviði menntunarmöguleika og menningarsamskipta, ferðaþjónustu og flugsamgangna, verslunar, inn- og útflutnings á matvælum og tollamála. Svo verður að mínu mati að koma fram í utanríkisstefnu Íslands, bæði í tengslum við Brexit og óháð Brexit, hver framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er á hagsmunagæslu okkar og samskipti við Evrópusambandið. Í skýrslunni er tíundað og farið vel yfir EES-samninginn og hagsmunagæslu okkar þar en miklu minna hver okkar stefna er varðandi samstarf og samskipti við þetta mikilvægasta viðskiptasvæði Íslands. Ætlum við til að mynda að feta í fótspor Dana og styrkja aðra markaði ef leiðirnar til Bretlands þrengjast? Hefur verið mörkuð stefna og tekin ákvörðun um það hjá hæstv. ráðherra? Það væri áhugavert að vita hvort sú vinna hefur raunverulega farið fram.

En til að enda á jákvæðu nótunum langar mig til að hvetja hæstv. ráðherra til að halda umhverfismálunum áfram hátt á lofti í utanríkisstefnu Íslands, sér í lagi núna í þeirri undirbúningsvinnu sem á sér stað fyrir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Eins og hæstv. ráðherra tæpti á í sinni ræðu eru málefni norðurslóðanna að verða mun umsvifameiri og mikilvægari í alþjóðamálunum og því hvet ég ráðherra til þess í því samhengi að halda á lofti umhverfismálunum. Þau eru sannarlega ekki bara hagsmunir okkar Íslendinga heldur fyrir heiminn allan. Það eru líka tækifæri í samstarfi norðurslóðaríkjanna og Norðurskautsráðinu með snertifleti við stórar og áhrifamiklar þjóðir sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda.

Ég fagna líka áframhaldandi áherslum á menningarmálin sem eru veigamikill þáttur í utanríkisstefnunni sem og áframhaldandi áherslur á jafnréttismálin, sérstaklega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem ég myndi gjarnan vilja ræða nánar í seinni ræðu minni.