146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[18:11]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel mikilvægt að það komi fram, og ég held að það hafi einmitt birst vel hér í dag, að ég og hæstv. utanríkisráðherra erum ekki í sama flokki. Okkar flokkar hafa mjög ólíka afstöðu til þessa máls sem er ástæðan fyrir því að farið var í ákveðna málamiðlun við gerð stjórnarsáttmálans. Sú málamiðlun er algjörlega skýr og henni þurfti hreinlega að ná. Ég get alveg tekið undir það að það er partur af því að efla hagsmunagæslu Íslands í Brussel að fjölga starfsmönnum þar og ég veit að ráðist verður í — hæstv. ráðherra hefur kynnt það á vettvangi utanríkismálanefndar og hér í þinginu og í öðrum þingnefndum — ákveðna vinnu við að fara í gegnum starfsemi utanríkisþjónustunnar með það að markmiði að hámarka skilvirkni og gæði starfa þar, sem þó hafa verið mjög mikil hingað til. Það er verið að reyna að gera enn betur.

Ég hef miklar væntingar til þess að sú vinna skili sér í því sem við viljum öll ná fram, þ.e. betri hagsmunagæslu í Brussel. Ég hef líka vissar væntingar til þess starfs sem við í hv. utanríkismálanefnd erum að vinna hvað varðar aðkomu þingsins að meðferð EES-mála. Vonandi sjáum við fram á að allt þetta vinni saman í átt að betri hagsmunagæslu og aukinni skilvirkni í störfum þingsins og ráðuneytisins hvað varðar Evrópska efnahagssvæðið.