146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

norræna ráðherranefndin 2016.

474. mál
[18:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins stutt um ráðherra. Starfandi samstarfsráðherra, geri ég ráð fyrir, tæpti hér aðeins á viðfangsefninu landamærahindranir. Hér er stuttlega rætt um starfsemi landamærahindrunar ráðsins og að það hafi skilað ágætum árangri frá því að það tók til starfa 2014. Ég er sammála því. Ég held að það hafi verið eitt af því uppbyggilegra sem flokka mætti undir vissa nýsköpun í starfinu undanfarin ár, þ.e. sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á að vinna skipulega að því að draga úr og fella niður hindranir sem eru í för einstaklinga og atvinnulífs, að ferðast og vinna og eiga viðskipti og samskipti innan Norðurlandanna í heild.

Þetta bitnar með ýmsum hætti á ungu fólki ekki síst, sem er að flytjast búferlum. Þetta hefur snúið að yfirfærslu réttinda og ýmsum ankannalegum hlutum sem oft koma upp varðandi það að hlutirnir gildi með sama hætti á öllum Norðurlöndunum. Það má nefna hið fræga dæmi um færeysku ökuskírteinin sem þeir stóðu í stappi með í eitt eða tvö ár, þau voru allt í einu ekki gjaldgeng eða viðurkennd í Svíþjóð eða annars staðar á Norðurlöndum.

Mig langaði sérstaklega að spyrja hæstv. ráðherra aðeins um það hvort hann þekki til þess hvernig að þessu er unnið hér af hálfu stjórnvalda. Ég held að við mættum líka taka það til okkar í þinginu. Í sumum hinna þjóðþinganna er höfð sérstök umræða um þetta og jafnvel sérstakur starfshópur innan þinganna. Það skiptir líka máli að framkvæmdarvaldið vinni þetta með virkum hætti. Mér finnst viðeigandi að nefna þetta í dag því að það voru einmitt að berast þær ánægjulegu fréttir að það væri að slakna á landamæraeftirliti á Eyrarsundsbrúnni. Búið er að fella niður vegabréfaskoðun sem þar var tekin upp og var ansi pínleg (Forseti hringir.) í samhenginu að menn telja sig hafa verið að vinna á fullu að því að fella niður landamærahindranir, en þar risu upp nýjar.