149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég var á fundi áðan í Háskólanum í Reykjavík um 25 ára afmæli hins mikilvæga samnings, EES-samningsins. Þar setti hæstv. utanríkisráðherra fram mjög svo undarlega stjórnmálaskýringu um EES sem jafnvel Münchhausen barón hefði verið ansi stoltur af.

Því meira sem ráðherrann talar því betur og betur kemur í ljós, og það er alvarlegt, að stefna hans í utanríkismálum er ekki mörkuð af íslenskum hagsmunum heldur er hún fyrst og fremst ætluð til heimabrúks í Sjálfstæðisflokknum. Það er grafalvarlegt eins og ástand alþjóðamála er nú um stundir um allan heim.

Ef það er raunverulegur vilji ráðherra að gæta að mikilvægasta viðskipta- og alþjóðasamningi sem Ísland hefur gert ætti hann að sjá sóma sinn í því t.d. að koma hingað inn, vígreifur, til að fylgja eftir þriðja orkupakkanum. Hann ætti að þora það, til þess að fylgja eftir EES-samningnum. Nú, eða að hvetja t.d. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og aðra til að fylgja eftir niðurstöðum EFTA-dómstólsins, hvort sem það er um innflutning á ferskvöru eða á öðrum sviðum.

Nei, það er auðvitað ekki gert því að þessa dagana hentar það einmitt ekki að hljóð og mynd fari saman. Það hentar ekki í grasrót hans eigin flokks.

En það er líka alvarlegt þegar kemur að því að gæta íslenskra hagsmuna vegna Brexit. Þegar kemur að því virðast ráðherrar ríkisstjórnarinnar, eins og utanríkisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra, reyna að vera meiri „Brexit-erar“ en Brexit-sinnarnir sjálfir í Bretlandi.

Brexit áttu að fylgja ótal tækifæri, að sögn utanríkisráðherra. Samt er engu svarað. Engum fyrirspurnum frá Viðreisnarþingmönnum eða öðrum, ekki í nefnd, hvað þá af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Það sem við blasir er að það er ekkert plan fyrir hendi hjá ríkisstjórninni og það eru bara 50 dagar til stefnu þar til að Bretar yfirgefa hugsanlega ESB. Hvað með íslenska hagsmuni á sviði sjávarútvegs og aukins flutnings í Evrópu? Hvað með það að menntamálaráðherra setur enga fyrirvara fyrir hönd íslenskra stúdenta í Bretlandi á meðan kollegar hennar í Danmörku og Noregi hvetja stúdentana áfram (Forseti hringir.) en gera það áfram á grundvelli varkárni?

Hvar er verið að gæta íslenskra hagsmuna í tengslum við Brexit? Ekki hjá ríkisstjórninni.