149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum samgönguáætlun ríkisstjórnar. Það er dálítið kostulegt að fylgjast með umræðunni eins og hún hefur verið hingað til. Búið er að þvæla mjög mikið um alls konar tæknilegar útfærslur, hvað þetta sé í raun og veru frábær samgönguáætlun, í henni sé forgangsraðað í fyrsta skipti og hún fullfjármögnuð í alla staði. Samt fylgja því þau skilaboð að ef eitthvað eigi að gera á suðvesturhorninu þurfi að borga aukalega fyrir það og ekki hafi verið útfært enn þá hvernig eða hversu mikið eigi að greiða.

Ég velti aðeins fyrir mér pólitíkinni í málinu. Hér er talað um — við skulum tala skýrt — skattahækkanir. Þetta eru skattahækkanir. Ég nenni ekki þvælu um það hvenær er gjaldtaka og hvenær skattheimta. Það er alveg augljóst, og við erum reyndar öll sammála um það, að bæta þarf verulega í samgöngumálin og nýfjárfestingar. Það bíða gríðarlega mikilvæg og dýr verkefni á suðvesturhorninu og hér er mælt fyrir leið til að fjármagna þær framkvæmdir.

Vandinn er sá að sú leið hefur ekkert verið rædd. Raunar voru tveir af þremur stjórnarflokkum henni algerlega andvígir í aðdraganda síðustu kosninga og sögðu skýrt að hún kæmi ekki til greina, en hafa án umræðu fallið á sverðið og kyngt þeim draumi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins í málinu, ef svo mætti orða, hv. þm. Jóns Gunnarssonar.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því þegar talað er um fjárfestingar upp á 160 milljarða á fimm ára tímabili og að því til viðbótar eigi að fjárfesta fyrir um 60 milljarða með veggjöldum að það er umtalsverð gjaldtökuaukning á íbúa landsins og sér í lagi á íbúa suðvesturhornsins. Það er dálítið sérstakt þegar því er haldið fram án þess að blikna að á ferðinni sé fullfjármögnuð og forgangsröðuð samgönguáætlun að öll brýnustu verkefnin skuli vera skilin eftir. Öll verkefnin þar sem umferðarþunginn er mestur, þar sem öryggismálin eru í mestu uppnámi, þar sem slysatíðnin er hvað þyngst, þar sem ferðatíminn er hvað lengstur, eru skilin eftir og eiga að bíða niðurstöðu um veggjöld.

Það er algerlega óboðlegt að fara í umræðu um jafn mikilvægt verkefni án þess að vera búin að útfæra til enda hvernig við ætlum að ljúka brýnustu framkvæmdunum. Það er ekki tækt að leggja upp með meingallað plagg, sem kom frá hæstv. samgönguráðherra, þar sem nær allir fjármunir sem til skiptanna voru í samgönguáætlun voru veittir annað en hingað á suðvesturhornið. Skilaboðin til þingsins eru: Þið verðið bara að finna út úr því hvernig þið ætlið að klára restina. Það gengur ekki að stjórnarmeirihlutinn ætli að bjóða upp á að klára þetta mál svona í þinginu án þess að hafa svarað þeirri einföldu spurningu hvernig við ætlum að fjármagna það. Hverjir borga? Hvernig lendir það með mismunandi hætti á íbúum á suðvesturhorninu, á íbúum eftir mismunandi búsetu á suðvesturhorninu, á íbúum eftir mismunandi tekjum? Og svo mætti áfram telja. Þetta hefur ekkert verið rætt.

Það liggur engin útfærsla fyrir af hálfu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um hvernig eigi að vinna með þær lykilspurningar. Hverjir borga og hversu þung byrði verður það fyrir þessa hópa?

Ég held til að mynda að þetta séu mjög köld skilaboð til íbúa í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, eins og á Reykjanesinu, Árborgarsvæðinu, Akranesi, í Borgarnesi og svo mætti áfram telja, sem sækja daglega vinnu til höfuðborgarsvæðisins.

Talað er fjálglega um að ávinningur sé mikill, að fólk spari svo mikið. Ég spyr: Hvað sparar það mér í ferðatíma í akstri á milli Reykjavíkur og Selfoss þótt lokið sé við tvöföldun á milli Hveragerðis og Selfoss? Á ég þá að borga aftur fyrir þann vegkafla sem þegar hefur verið byggður með almannafé?

Það sama mætti segja um íbúa í Reykjanesbæ. Hvað sparar það mér í ferðatíma að ljúka tvöfölduninni á lokakaflanum inn í borgina á móti því að mér sé ætlað að borga fyrir alla framkvæmdina að nýju í veggjöldum? Hver er sanngirnin í því? Hvernig kemur þetta niður á fólki sem hefur m.a. út af húsnæðisskorti og háu húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu flutt út í fyrrnefnd sveitarfélög, sem hafa verið mjög vaxandi sveitarfélög á undanförnum árum, m.a. vegna slíkrar þróunar, en sækir áfram vinnu daglega til höfuðborgarinnar?

Einstaklingur sem ekur milli Selfoss og Reykjavíkur á eyðslugrönnum bíl eyðir kannski um 1.200 kr. í bensín á dag á leiðinni fram og til baka. Miðað við hugmyndir um að veggjöld gætu verið u.þ.b. 300 kr., en enn og aftur við höfum við sáralítið séð um það í raun, myndu bætast 600 kr. í daglegan ferðakostnað þessa einstaklings til og frá Selfossi.

Ég held að íbúar þessara sveitarfélaga eigi rétt á því að sjá útfærðar hugmyndir stjórnarmeirihlutans áður en þeim og þingmönnum í salnum verður gert að taka afstöðu til forgangsröðunar í samgöngumálum. Það er alveg augljóst að hér er ekki fullfjármögnuð samgönguáætlun á ferðinni. Það eru helber ósannindi að halda því fram, hvað þá að forgangsraðað hafi verið á sanngjarnan og réttan hátt þegar allar mikilvægustu framkvæmdirnar eru undanskildar og þau skilaboð færð að eftir þeim verði að bíða þar til veggjöld hafa verið útfærð.

Það er forlagahyggja í þeirri röksemdafærslu meiri hlutans að engin önnur leið sé fær. Það er bara bull. Það er fullt af öðrum leiðum færum til að fjármagna þær mikilvægu framkvæmdir. Ríkið heldur á eignarhlut í tveimur af stærstu viðskiptabönkum landsins með bundið eigið fé í þeim upp á 300 milljarða kr. Við erum að tala um fjárfestingar upp á 50–60 milljarða. Það væri hæglega hægt að byrja að losa um eignarhald, eins og er stefna ríkisstjórnarinnar, og snúa þannig fjármagni sem bundið er í bönkum í fjármagn sem bundið er í mikilvægum innviðum. Sú leið er fullfær.

Ef skattahækkanir þarf til, eins og hér er boðað, er líka hægt að ræða af alvöru hvort aðrar leiðir séu færar, hvort önnur skattheimta kunni að vera hentugri og kannski — guð forði okkur frá þeirri umræðu — væri hægt að tala um skynsamlega forgangsröðun fjármuna þegar ríkisstjórnin boðar útgjaldaaukningu á sínu fjögurra ára kjörtímabili upp á 190 milljarða kr. í árlegum útgjöldum ríkissjóðs. Við gætum kannski fundið pláss þar fyrir þá 5–10 milljarða á ári sem vantar til að geta fjármagnað þessar framkvæmdir með góðu móti.

Það er ágætt að hafa í huga að vegagerð í landinu er ein af grunnskyldum ríkisins á sama hátt og það er grunnskylda ríkisins að reka gott og öflugt heilbrigðiskerfi, gott og öflugt menntakerfi. Erum við að færa íbúum landsins þau skilaboð að ekkert sé hægt að gera í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins nema hækka notendagjöldin? Nei. Erum við að færa nemendum þau skilaboð að ekki sé hægt að fjárfesta í menntakerfinu nema til komi stórhækkuð skólagjöld? Nei. Við forgangsröðum fjármunum inn í þær mikilvægu stoðir samfélagsins og vegakerfið er þar ekki undanskilið.

Það leiðir hugann að því hvenær veggjöld eiga við. Sá sem hér stendur er í grundvallaratriðum ekki andvígur veggjöldum. Þau geta átt við í fjölmörgum tilvikum. Við höfum góð og vel heppnuð dæmi um veggjöld. Hvalfjarðargöngin voru framkvæmd sem ekki stóð til að fara í en styttu verulega leið íbúa og spöruðu þeim mun meiri fjármuni en sem nam veggjöldunum sem rukkuð voru. Það var í alla staði mjög vel heppnuð framkvæmd. Göngin voru greidd upp á réttum tíma, skilað til ríkisins á réttum tíma, reyndar á undan áætlun. Þau voru gríðarlegt framfaraskref í samgöngumálum þjóðarinnar.

Við erum með annað dæmi, Vaðlaheiði, sem uppfyllir að mörgu leyti sömu grunnskilyrði, styttir leið, sparar íbúum fjármagnaðan kostnað við akstur. Það er kannski ekki sérlega vel heppnuð framkvæmd en við sjáum hvernig til tekst þegar upp verður staðið og hvort takist að greiða framkvæmdina upp með þeim veggjöldum sem nú er verið að innheimta. En aftur uppfyllir framkvæmdin grundvallarkröfu: Framkvæmd sem ekki stóð til að ráðast í og ekki var verið að heita neinu fé til úr samgönguáætlun en var flýtt á þennan hátt, íbúar greiddu fyrir með veggjöldum en spöruðu sér umtalsverða fjármuni á móti.

Sundabraut gæti verið dæmi um framkvæmd, horft fram á veginn, sem uppfyllti þau skilyrði að sama skapi. Framkvæmd sem er ekki og hefur ekki verið á áætlunum okkar hingað til. Reyndar liggur ekki ljóst fyrir hvort samstaða er um að ráðast í hana en ef sú ákvörðun verður tekin gæti hún passað mjög vel inn í þetta líkan um veggjöld.

Ef við horfum á Reykjanesbrautina, Suðurlandsveginn að Selfossi og austur fyrir Selfoss, Ölfusárbrúna og að greiða fyrir samgöngum frá höfuðborgarsvæðinu á Vesturland eru það allt saman framkvæmdir sem hafa verið á áætlunum árum saman. Þetta eru allt saman framkvæmdir sem frambjóðendur til Alþingis hafa heitið kjósendum í þeim kjördæmum árum saman, og aldrei í samhengi við umræðu um veggjöld þar til nú.

Hér er stjórnarmeirihlutinn einfaldlega að svíkja kosningaloforð sín. Þingmenn stjórnarmeirihlutans pakka inn í einhvern veggjaldapakka nauðsynlegum framkvæmdum, sem ættu að vera fremst í forgangsröðinni, og segja: Þessar umbætur í vegamálum getið þið ekki fengið nema greiða aukalega fyrir.

Mér finnst full ástæða til, herra forseti, að við tökum okkur tíma til að ræða það. Við ættum ekki að vera að ræða þetta í þeirri tímapressu sem er sett um að ljúka verði samgönguáætlun á þann hátt sem lagt er upp með núna og bíða og vona að okkur takist að ljúka skynsamlegri niðurstöðu um fjármögnun þessarar mikilvægustu framkvæmdar sem samgönguáætlun ætti að vera að taka á og sem hæstv. samgönguráðherra hefði auðvitað átt að finna viðunandi lausn á áður en samgönguáætlun var lögð fram. Meiri hluti samgöngunefndar hefði í það minnsta átt að grípa þann bolta og ljúka vinnunni, en það tókst ekki.

Það eru fleiri þættir sem vert er að huga að og snúa að því hversu vandvirk við erum þegar kemur að miklum breytingum í lagasetningu eða fyrirkomulagi mála á þingi. Ég óttast ekki breytingar. Ég tel alltaf felast tækifæri í breytingum. En það þarf að vanda til umræðunnar, vanda til verka þegar á að ráðast í grundvallarbreytingar í samfélaginu. Verið er að tala um nýja fjármögnunarleið á vegasamgöngum sem er full ástæða til að taka alvarlega umræðu um. Það er nefnilega, þegar öllu er á botninn hvolft, nauðsynlegt að stokka upp gjaldtökukerfi okkar á umferð. Það er augljóst eftir því sem okkur miðar betur í orkuskiptum og eftir því sem bensín- og dísilbílum fækkar í umferðinni að eldsneytisgjöld og kolefnisgjöld munu ekki standa undir nauðsynlegum framkvæmdum í vegakerfinu.

Það gefur augaleið að við þurfum að ræða hvernig við ætlum að hafa framtíðarfjármögnun. Þá væri vel við hæfi að við hefðum framtíðarfjármögnun vegakerfisins einfalda, skilvirka og sanngjarna fyrir alla landsmenn, að við greiddum öll á sama hátt, að ekki væri sagt við íbúa suðvesturhornsins: Þar sem þorri umferðarinnar er hérna borgið þið þorra eldsneytisgjaldanna, þorra kolefnisgjaldanna en eigið líka að borga veggjöldin, þorra þeirra í það minnsta. Þetta mun bitna harðast á íbúum á því svæði.

Tökum umræðuna, og vöndum til hennar, um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku af umferð. Það er meira en líklegt, við horfum til annarra landa með fordæmi um það, að slík gjaldtaka muni fela í sér einhvers konar kílómetragjöld, að notendur greiði í samræmi við notkun sína á vegakerfinu. Ofan á það bætast til að mynda kolefnisgjöld, til að vera með áframhaldandi hvata til orkuskipta í samgöngum.

En það þarf að tala saman í áherslum hvað varðar orkuskipti, orkustefnu og áherslur okkar og metnað í loftslagsmálum. Þetta mikilvæga plagg sem samgönguáætlun og fjármögnun eða gjaldtaka á umferð er þarf að fara saman við markmið okkar þar og veggjöld gera það ekki. Þau leggjast með sama hætti á eyðslufrekan bíl og eyðslugrannan bíl eða rafmagnsbíl, leggjast með sama hætti á dýran fólksbíl og ódýran fólksbíl. Þau skila okkur engu til viðbótar í metnaði okkar varðandi orkuskipti, í metnaði okkar til að vera með jákvæða hvata í gjaldtöku á umferð til að fólk skipti yfir í umhverfisvænni orkugjafa.

Ég held að við ættum að gefa okkur betri tíma til þeirrar umræðu. Það er líka mjög áhugavert í því samhengi öllu saman að almenningssamgöngur, þ.e. stærsta einstaka verkefnið þegar kemur að almenningssamgöngum, borgarlínan, er skilið eftir meira og minna óklárað. Varið er 800 milljónum til undirbúnings á því langmikilvægasta verkefni samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Metnaðarleysi meiri hlutans, metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í þeim efnum er algert.

Ef við horfum á heildarumfangið á þeim framkvæmdum sem þar þarf að ráðast í, ef við horfum á stofnvegina til og frá höfuðborgarsvæðinu og að auki þær nauðsynlegu vegabætur sem þurfa að eiga sér stað innan höfuðborgarsvæðisins og fjárfestingar í kringum borgarlínu, erum við sjálfsagt að tala um heildarfjárfestingu af stærðargráðunni 100–110 milljarða. Eigum við ekki að taka utan um það verkefni af einhverjum metnaði og ljúka því? Ljúka fjármögnun og fá skýrar línur í vilja ríkisstjórnarinnar til að taka þátt í langmikilvægustu samgöngubót á suðvesturhorninu, langmikilvægustu og stærstu skrefum okkar til að draga úr losun frá umferð á höfuðborgarsvæðinu?

Í því fælist metnaður. Í því fælist einhver framsýni. Við gætum þá í leiðinni tekið utan um vandaða umræðu um framtíðargjaldtökufyrirkomulag á umferð á landinu öllu þannig að við greiðum öll á sanngjarnan og eðlilegan máta fyrir notkun okkar á vegakerfinu.

Ég geri engar athugasemdir við að stærstum hluta þess fjármagns sem er í samgönguáætlun sé varið til vegauppbyggingar á landsbyggðinni. Það gefur augaleið að í stóru, víðfeðmu landi með fáa íbúa mun það alltaf vera svo, það mun alltaf fara hlutfallslega mjög hátt hlutfall af vegafé okkar til nauðsynlegrar uppbyggingar víða um landið. Ég geri hins vegar verulega athugasemd við það hvernig suðvesturhornið er látið liggja algerlega óbætt hjá garði í algjörri óvissu um hvort og þá hvernig hægt verði að ráðast í nauðsynlegar samgöngubætur á suðvesturhorni landsins.

Ég geri verulegar athugasemdir við að við ráðumst í svona grundvallarbreytingar án þess að kanna með nokkrum hætti hvaða áhrif þær hafa, hvaða áhrif þær hafa á íbúa landsins, hvort þau séu misjöfn eftir búsetu, hvort þær skili árangri í öðrum markmiðum okkar, eins og þegar kemur að umhverfismálum, orkuskiptum. Þetta er ótrúleg óvandvirkni í opinberri stefnumótun. Við getum ekki tekið svona ákvarðanir með því að smella fingri, bara af því að okkur datt í hug í nóvember að leysa málið þannig. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Það eru ekki boðleg vinnubrögð að segja síðan: Hinkrið þið róleg, það kemur frumvarp í mars eða apríl eða maí þar sem þið fáið að ræða veggjöldin.

Aðrar þjóðir taka sér nokkur ár í að undirbúa grundvallarbreytingar þannig að virkilega sé vandað til þeirra. Það má m.a. nefna að í Noregi er ekki óumdeilt hvernig staðið er að gjaldtöku á umferð og Norðmenn eru í óðaönn að endurskoða hvernig þeir hyggist standa að framtíðargjaldtöku. Gætum við ekki, eins og nefnt hefur verið t.d. í tengslum við fiskeldi, jafnvel lært eitthvað af reynslu Norðmanna í stað þess að taka bara upp gamla fyrirkomulagið þeirra? Eigum við ekki að prófa einu sinni að vera metnaðarfull, vandvirk, horfa til dálítið lengri framtíðar og búa þannig um hluti að þeir geti staðið nokkuð stabílir og óbreyttir um árabil, jafnvel áratuga skeið ef vel tækist til?

Það væri nýbreytni í íslenskum stjórnmálum ef við þyrftum ekki alltaf að vera að stagbæta mistök fyrri ára.

Það er full ástæða til að vanda til verks. Staðreyndin er sú að ekki þarf að gaumgæfa þetta mál mjög lengi til að átta sig á því að auðvitað eru til aðrar leiðir til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir. Við höfum tímann fyrir okkur til að ljúka þeirri umræðu, t.d. með söluferli á bönkunum, en vandinn er að um það er ekki pólitísk samstaða í ríkisstjórninni. Þrátt fyrir fyrirheit um að hafist verði handa við að skoða og jafnvel setja það í nefnd að vinda ofan af fordæmalausu eignarhaldi ríkisins á bankakerfinu hér á landi vitum við að ekki stendur til að gera neitt í þeim efnum hjá ríkisstjórninni.

Ef einhver skynsemi væri í ríkisstjórninni myndum við á einfaldan hátt taka bráðabirgðaákvörðun um samgönguáform áranna 2019 og 2020 og skila þessari áætlun aftur til ráðherra og biðja hann að klára hana. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)