149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú svolítið farið vítt yfir. Hugarreikningurinn segir mér það, miðað við að ríkisreksturinn taki inn um 800 milljarða, þar af er 27–28% tekjuskattur, rétt fjórðungur, svo með virðisaukanum erum við komin í 50%, að til að fjármagna 6–8 milljarða eins og talað er um erum við að tala um 1% á ári, sem eru notendagjöld.

Ég bendi á það í umræðunni sérstaklega um flugmálin, sem maður hefur kannski mest verið að sinna í vetur og farið hefur mikill tími í, leggjum við áherslu á að það verði notendagjöld fyrst og fremst þeirra sem nýta flugið, flugvellina, sem munu borga það að mjög stóru leyti. Leitum fyrst og fremst fjármögnunar þar.

Þegar ég tala um að verið sé að svelta samgöngukerfið þá eru það bara pólitískar ákvarðanir í þessum sal undanfarinna ára eftir efnahagshrunið, fjármagnið hefur farið í aðra hluti. Það hefur ekki verið pólitískur vilji til að fara í nákvæmlega þessa hluti. Við höfum oft rætt, kannski í fjárlaganefnd og hér í pontu Alþingis, að það kostar líka að verja ekki fé í viðhaldið. En í þjónustugjöldum talið er þetta u.þ.b. 1% af því sem ríkið tekur inn, ef við tökum þann vinkil til að fá samanburðinn. Það eru þá væntanlega 0,2–0,3% af landsframleiðslu.

Ef við lítum á efnahagslega þáttinn er því fjármagni gríðarlega vel varið fyrir landsframleiðsluna, hagvöxt og annað á næstu árum, eins og við þekkjum vítt og breitt um heiminn þar sem menn hafa lagt inn í samgöngukerfið. Það er það sem eflir þjóðirnar. Það er það sem skapar hagvöxt í ríkjunum, hvort sem við lítum til Bandaríkjanna, Þýskalands eða fleiri þjóða sem hafa byggt upp sín kerfi og lagt mikla áherslu á það. Þar kemur þetta fyrst fremst fram.