150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

aðgengi hælisleitenda að almenningssamgöngum.

343. mál
[17:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alltaf mikilvægt að við skoðum þróun í útlendingalöggjöfinni, bæði varðandi veitingu á vernd en líka þá þjónustu sem við bjóðum upp á meðan fólk bíður eftir þeirri niðurstöðu. Hælisleitendur þurfa að geta sinnt erindum sínum og náð sér í nauðsynlega þjónustu. Þeim er tryggður aðgangur, líkt og hv. þingmaður kom inn á, að gjaldfrjálsum almenningssamgöngum eins og reglugerð um útlendinga kveður á þar sem í 28. gr. segir orðrétt um samgöngur:

„Útlendingastofnun, eða eftir atvikum sveitarfélag sem Útlendingastofnun hefur samið sérstaklega við, skal tryggja umsækjanda um alþjóðlega vernd gjaldfrjálsar almenningssamgöngur vegna erinda sem hann kann að eiga vegna umsóknar sinnar.“

Í samræmi við þetta fá þau sem dvelja í Reykjanesbæ strætómiða vegna heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu til að mæta í viðtöl og birtingar hjá Útlendingastofnun og viðtöl hjá talsmanni. Jafnframt fá hinsegin umsækjendur sérstaka aukamiða til að mæta á fund eða ráðgjöf hjá Samtökunum '78 og annað þannig að það er verið að reyna að bæta ýmsa þjónustu sem er ekki í boði í því sveitarfélagi sem hér er um rætt. Allir fá strætókort til innanbæjarferða og það verður auðvitað að hafa hugfast í þessu og þegar við tölum um félagslega einangrun að Reykjanesbær er fjórða stærsta sveitarfélag landsins með rúmlega 19.000 íbúa og bærinn sjálfur býður upp á mjög fjölbreytta þjónustu og afþreyingu sem hælisleitendur geta nýtt sér eftir því sem þeir kjósa. En hér er kannski mest verið að líta til þeirrar þjónustu sem ekki er í boði þar eins og hjá Samtökunum '78, og þar hefur þá verið sá sveigjanleiki að bjóða upp á strætómiða varðandi fundi eða ráðgjafa sérstaklega þar.

Spurt er hvort tilhögunin sé fullnægjandi til að rjúfa einangrun. Ég tel ekki hægt að rökstyðja með fullnægjandi hætti að það geti kallast að búa við einangrun að vera í Reykjanesbæ sem er stórt sveitarfélag og býður upp á mikla þjónustu og það eru ekki nein sérstök áform um að breyta þessu fyrirkomulagi. Við viljum auðvitað tryggja að fólk geti sinnt þeim erindum og fengið þá þjónustu sem ekki er í boði á því svæði og geti nýtt sér almenningssamgöngur til að nýta þá þjónustu sem aukalega þarf sem bara er hægt að nálgast á höfuðborgarsvæðinu.

Málefni þessi hafa verið í brennidepli um nokkurt skeið og hafa breyst mikið á undanförnum árum og því er alltaf sjálfsagt að velta fyrir sér hvaða þjónustu við ætlum að veita og hvernig við ætlum að forgangsraða henni. Ég held að mörg framfaraskref hafi verið stigin í þessu og þetta er nokkuð sem við erum alltaf með í skoðun enda hafa sjaldan fleiri hælisleitendur verið í þjónustu hjá Útlendingastofnun en núna. Það hefur breyst gríðarlega á síðustu tíu árum eða svo og fjöldinn aukist hratt á síðustu fimm árum. Svo skoðar maður fjármuni sem málaflokkurinn hefur til ráðstöfunar og hvernig við getum nýtt þá sem best svo að fólk fái fljótt svör og geti sem fyrst hafið aðlögun að íslensku samfélagi en sé líka með nauðsynlega þjónustu á meðan það er í þjónustu hjá undirstofnunum okkar.

Það er eðlilegt að spyrja slíkra spurninga en eins og komið hefur fram eru ekki sérstök áform um að breyta þessu fyrirkomulagi. Hér held ég að sveigjanleiki sé mikilvægur eins og við sjáum varðandi hinsegin umsækjendur þar sem um er að ræða þjónustu sem ekki er hægt að fá í Reykjanesbæ þótt það sé stórt sveitarfélag.