151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

uppbygging geðsjúkrahúss.

395. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um geðsvið Landspítala sem er meginmiðstöð geðlækninga á Íslandi. Nú á sér stað uppbygging Landspítala við Hringbraut en ekkert í þingsályktunartillögunni segir að geðsvið Landspítala þurfi að vera við Hringbraut, alls ekki, heldur að þeirri þjónustu sem er veitt á geðsviði Landspítala verði búið sómasamlegt húsnæði hvar sem ákveðið verður að gera það. Það að stjórnvöld taki ákvörðun um að auka við þjónustu við þá sem glíma við geðrænar áskoranir á öðrum stöðum en Landspítala held ég að sé bara mjög af hinu góða.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur auðvitað talað mjög fyrir því og aukið við þjónustu á heilsugæslunni en því miður er svo löng bið eftir því að komast þangað inn til að ræða við sálfræðinga að það er alveg spurning hvort hægt sé að hrósa sér mikið fyrir það. Þegar nýbökuð móðir sem glímir við erfitt fæðingarþunglyndi þarf að bíða mánuðum saman eftir að komast í viðtal hjá sálfræðingi er það kannski ekkert sérstaklega góð þjónusta í opinberu kerfi. Börn sem glíma við átröskunarsjúkdóma komast ekki að í neinu teymi hér mánuðum og árum saman. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um húsnæði geðsviðs Landspítala sem er bara því miður barn síns tíma og óboðlegt, bæði sjúklingum og starfsfólki.