152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Það er ekki erfitt að standa með alþjóðalögum þegar þau eru virt. Það er ekki fyrr en þau eru brotin sem reynir á samstöðu alþjóðasamfélagsins. Nú er verið að brjóta þau alþjóðalög sem eru allra heilögust; rússneskir hermenn myrða saklaust fólk í Úkraínu, hermenn nauðga konum, heilu íbúahverfin standa eyðilögð. Gervihnattamyndir sýna myndina eins og hún er og hún er hryllileg. Við eigum sem þjóð að velta því fyrir okkur hvað við getum lagt til. Við tökum á móti fólki sem flýr heimaland sitt í Úkraínu. Við tökum þátt í efnahagsaðgerðum og viðskiptahindrunum. Við gætum líka lagt til fjármagn til að styðja við rannsókn á stríðsglæpum Rússa, tillaga um það liggur fyrir hér á Alþingi. Samstaðan og viðbrögðin eiga að birtast úr öllum áttum og svarið á birtast skýrt alls staðar þar sem hægt er að koma skilaboðunum á framfæri. Ríki Evrópusambandsins hafa núna vísað rússneskum sendiráðstarfsmönnum burt vegna gruns um njósnastarfsemi, Frakkar og Þjóðverjar þar á meðal og Danir, Ítalir, Spánverjar og Slóvenar. Litháar hafa sent rússneska sendiherrann heim. Evrópusambandið vísaði rússneskum erindrekum frá Brussel. Síðustu tvo daga hafa 200 rússneskir sendiráðsstarfsmenn verið reknir heim. Ég spyr: Hvers vegna vísum við ekki rússneska sendiherranum úr landi? Já, það gæti þýtt að diplómatar Íslands í Rússlandi verði þá líka reknir heim. En forseti. Það er í samhengi hlutanna þolanlegt. Ég stend ekki hér og tala fyrir því að senda starfsmenn rússneska sendiráðsins úr landi vegna þess að ég skilji ekki að það er stór ákvörðun. Ég geri það einmitt vegna þess að ég skil hversu stór sú ákvörðun er, hún stór og hún er rétt.