154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:22]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra varðandi stöðu Bríetar, sem á að nota núna til að fjármagna 120 íbúðir til viðbótar við þær 80 sem var samþykkt hér fyrir jól, og sérstaklega hvernig hún horfir á samspil þessara kaupa við aðrar aðgerðir á húsnæðismarkaði, ekki bara núna út af Grindavík heldur kannski á næstu árum vegna þess að við vitum að húsnæðismarkaðurinn er viðkvæmur markaður.

Það kom á óvart í hv. fjárlaganefnd fyrir jól að engin könnun hefði verið gerð á áhrifum þessara kaupa, magnkaupa, á húsnæðismarkaðinn, eins mikilvæg og þau eru, þrátt fyrir að það hafi verið um 5 milljarða heildarkaup í raun sem þessi fjárveiting hefði ýtt undir. Og það er annað eins að fara að koma inn á markaðinn núna í kaupum, ef ekki meira.

Mig langaði til að vekja athygli ráðherra á því, ef hún hefur ekki áttað sig á því, og fá viðbrögð varðandi það að Bríet hefur tæknilega séð ekki heimildir til að fjárfesta á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það bendir ýmislegt til í þessu frumvarpi að það verði vilji fyrir því að fjárfesta á höfuðborgarsvæðinu og þetta var rætt í fjárlaganefnd á sínum tíma, hvort það ætti ekki að breyta heimildum félagsins. Og eins ef við skoðum lögin um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, þar kemur fram að verkefni þess sé að fjárfesta í húsnæði þar sem er skortur á leiguhúsnæði og sérstök vandkvæði varðandi fjármögnun. Og við vitum að þessi félög voru sérstaklega stofnuð í kringum landsbyggðina.

Núna ætla ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að við nýtum svona stofnun eða félag líkt og Bríeti til þess að kaupa slíkar íbúðir á tímum sem þessum. En spurningin til ráðherra er: Ef það er vilji til þess að auka, hvað á ég að segja, húsnæði á félagslegum forsendum eða óhagnaðardrifnum forsendum í kerfinu til langframa og kannski vilji til að eiga þessar íbúðir líka síðar meir þrátt fyrir að þetta áfall sé riðið yfir, hvort það sé ekki best að gera þetta almennilega og breyta heimildum félagsins svo það sé hægt að gera þetta rétt.