154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við settum í forgang það stóra verkefni að geta svarað fólki og fjölskyldum búsettum í Grindavík varðandi það með hvaða hætti þau geta gert ráðstafanir til millilangs eða lengri tíma. Við höfum líka verið að vinna að þessu frumvarpi en þegar aðstæður breytast síðan ansi hratt og við erum einhvern veginn farin að taka ákvarðanir sem miða að því að enginn muni eiga heima í Grindavík næstu misseri þá vildi ég taka snúning á því hvort þau úrræði sem byrja í raun sem tekjufallsstyrkur, eiginlega viðspyrnustyrkur og brú yfir í eitthvert nýtt ástand sem við vitum ekki hvenær kemur, hvort það kemur og hvar, að við pössum það alla vega að markmiðin séu skýr.

Ég á fund núna með fyrirtækjum á svæðinu til þess einmitt að eiga þetta samtal vegna þess að markmiðið með þessu frumvarpi sem núna er í smíðum er að gefa fyrirtækjum súrefni og að brúa yfir í eitthvað annað. Það er aðeins mismunandi hvað það er eftir því hver starfsemin er. Til að mynda ef þú ert að reka hárgreiðslustofu í Grindavík, þú ætlaðir mögulega að reka hárgreiðslustofu annars staðar en þú gerir það augljóslega ekki í Grindavík. Það eru dæmi um starfsemi sem er bæði í Grindavík og annars staðar og þá getur viðkomandi haldið þeirri starfsemi áfram en hann hefur örugglega orðið fyrir tekjufalli vegna þess að enginn gat verslað við viðkomandi í Grindavík. Þetta er auðvitað hugsað aftur í tímann frá því að atburður hófst og út apríl. Þannig að þetta er líka bara til að svara þeim áhyggjum sem atvinnurekendur hafa núna af því að rekstur þeirra stendur verr vegna alls, að það sé þá leiðrétt upp að einhverju marki. En við erum hérna t.d. að miða við ekki svo marga starfsmenn, upp að tíu starfsmönnum, og þarna eru auðvitað stór fyrirtæki með miklu fleiri starfsmenn. Þar hefur maður heyrt mjög skýrt að það er vilji til að halda því áfram og það kemur bráðum í ljós hversu raunhæft það er og þá er spurning hvað kemur í framhaldi af því.