154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2023.

643. mál
[11:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og ekki síst þessa fallegu skýrslu sem við þingmenn höfum fengið í hólfin okkar og almenningur getur nálgast á netinu. Mig langar að segja það að ég tel að hæstv. ráðherra hafi sinnt þessu starfi vel að vera í formennsku í ráðherranefndinni. Það er auðvitað mikið samstarf á milli ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs og á köflum hefur það samstarf svolítið snúist um ákveðin átök sem ja, eru kannski líka hluti af lýðræðislegri umræðu og þróun. Það hafa verið svolítil átök um það hvernig fjármagni er varið og Norðurlandaráð vill hafa meira um það að segja hvernig því er varið. Þá er það kannski líka þannig að það virðist vera mjög útbreidd skoðun meðal þingmanna Norðurlandaráðs að það þurfi að setja meiri peninga í norrænt samstarf. Ég og við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs höfum nú tekið undir þá áskorun, þ.e. að fjárframlög til samstarfsins hafi ekki fylgt þeim vaxandi mannfjölda sem í löndunum býr eða náð að hækka á hvern íbúa. En það er samt sem áður þannig að Ísland greiðir svo sem lítinn hluta af þessu og það virðist ekki vera mikill áhugi hjá stærri löndunum að setja aukið fjármagn í norrænt samstarf. Það kom meira að segja til umræðu og var forsætisráðherra Danmerkur spurð sérstaklega út í þetta á Norðurlandaráðsþinginu þar sem hún talaði um að norrænt samstarf væri mjög mikilvægt og það snerist fyrst og fremst samtalið sem slíkt en það kostaði ekki peninga að tala saman. Svona í lauslegri þýðingu var svarið eitthvað á þá vegu og sitt sýndist hverjum um það svar.

Ég vil meina að norrænt samstarf skipti Norðurlöndin öll mjög miklu máli en Ísland sérstaklega og það að við getum samsvarað okkur og verið stór aðili í þessu samstarfi skiptir mjög miklu máli. Ekki er ég nú hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið en ég er mjög hlynnt alþjóðlegu samstarfi. Ég er mjög hlynnt EES-samningnum og því að Ísland eigi í góðu samstarfi við Evrópu og Evrópusambandið en norrænt samstarf á að geta verið svolítið, hvað á ég segja, þráðurinn okkar. Þarna erum við með samfélög sem eru ofboðslega lík. Það er lík samsetning hvað varðar lagaumgjörðina okkar, velferðarsamfélagið og allt annað þannig að það er svo mikil tenging í því að geta unnið saman. Þegar við horfum á heiminn eins og hann er í dag, sem er uggvænlegt þótt ekki sé dýpra í árinni tekið, þá er alveg ljóst að Norðurlöndin geta haft mjög sterka rödd og sterk skilaboð inn í það umhverfi. Þá er ég einmitt að vísa í eina af yfirskriftinni frá formennskutíð hæstv. ráðherra um friðinn og það að við á Norðurlöndum getum verið boðberar friðar. Við vorum auðvitað ekkert alltaf friðsamleg og fórum alveg í stríð hvert við annað hér á sínum tíma. Við flúðum alla vega, fyrst Noregskonung og svo börðumst við fyrir því að fá sjálfstæði frá Danmörku, þannig að við eigum alveg líka okkar sögu, Norðurlöndin. En okkur hefur tekist í allan þennan tíma að eiga friðsamleg samskipti sem byggja fyrst og fremst á lýðræði, sem er auðvitað grunnurinn að friði. Ég held að það hafi verið mikilvægt hjá hæstv. ráðherra að setja þetta á oddinn á tímum sem þessum í norrænu samstarfi og þess vegna höfum við ákveðið hjá Íslandsdeildinni að í formennskutíð okkar þá höldum við áfram þessum boðskap. Okkur fannst líka mikilvægt að fara að horfa sérstaklega til norðurslóða og ég mun kannski ræða það í ræðu minni á eftir þegar ég fylgi eftir skýrslu Norðurlandaráðs.

Mig langar líka að segja að maður áttar sig á því þegar maður fer inn í þessa vinnu að það er alveg rosalega mikið af öflugu fólki sem er að vinna á vettvangi stjórnsýslunnar að norrænum málum. Bara síðast í gær eða fyrradag bauð ráðherra okkur til sín og þar voru margir aðilar að vinna úr stjórnsýslunni og þá verða til hugmyndir, þegar fólk hittist. Það er einmitt tækifæri okkar Íslendinga, við erum stundum svolítið fljót að bregðast við og getum unnið hratt og vel saman. Ég held að það sé full ástæða til þess að við nýtum okkur þá miklu þekkingu og reynslu sem þar er og þau samskipti sem eiga sér stað á vettvangi embættismannanna. Ég efast ekki um það að ráðherrarnir séu svolítið með þetta allt saman á hreinu en það er líka akkur fyrir okkur þingmennina að þekkja betur það fólk sem stendur í þessari vinnu og heyra frá þeim því að það er alveg ofboðslega mikið af hugmyndum og tækifærum sem þarna geta flætt á milli.

Ég ætla ekkert að lengja frekar þessa umræðu, ekki að það skipti miklu máli því hér er auðvitað full mælendaskrá — er það ekki, virðulegur forseti? — því að áhuginn á þessari umræðu er alltaf mikill. Þetta var alger kaldhæðni, hæstv. ráðherra, og hefur ekkert með þessa góðu skýrslu og góðu ræðu að gera en ég hef margoft sagt að ég myndi gjarnan vilja sjá Alþingi Íslendinga taka meiri þátt í umræðu um alþjóðastarf. Ég tala nú ekki um að þegar ástandið er eins og það er þá er mikil ástæða fyrir því að þessi góði vettvangur hér, málstofan okkar, sé líka nýtt til að ræða alþjóðamál. Þar er norrænt samstarf mikilvægt því að það eru okkar helstu nágrannar, það er okkar stærsti alþjóðavettvangur þar sem við verjum hvað mestum fjármunum og tíma og embættismannakerfið okkar jafnt sem ráðherrarnir og svo er auðvitað landsdeildin í Norðurlandaráði stærsta landsdeildin hvað alþjóðasamstarf varðar.

Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir þessa fínu skýrslu sem við munum örugglega nýta okkur hér og ég vænti þess að flestir þingmenn muni lesa og geti nýst okkur í störfum okkar á alþjóðavettvangi, hvort sem það er í Norðurlandaráði eða jafnvel að aðrar landsdeildir geti líka vel nýtt sér þær upplýsingar sem hér liggja fyrir. Það er mat mitt að þetta formennskuár hafi gengið mjög vel. Bæði hefur hæstv. ráðherra staðið sig vel í því að halda utan um þetta en svo hefur líka verið gaman fyrir okkur Íslendingana á þessum vettvangi að fylgjast með öllum íslensku ráðherrunum sem hafa þá verið að leiða vinnuna í sínum ráðherranefndum. Ég vænti þess að á sama tíma og mikil orka og kannski einhverjir fjármunir hafa farið í þessa vinnu þá muni það líka nýtast okkur Íslendingum býsna vel.