154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:23]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða og mér hefur alltaf þótt dálítið spennandi og forvitnilegt hvers vegna við Íslendingar erum feimin við umræður um varnarmál. Við tölum um að við séum herlaus þjóð og það er vissulega rétt, en við erum ekki vopnlaus þjóð og höfum aldrei verið. Í því ljósi ættum við að kasta af okkur þessari feimni gagnvart þessu mikilvæga málefni því að það er auðvitað alveg augljóst að engin þjóð er fullvalda og sjálfstæð nema hún geti séð um sínar varnir, alla vega að stórum hluta. Það er bara beinlínis hlutverk íslenskra stjórnvalda að sjá um að hér séu varnir, hér séu landvarnir, hvernig svo sem því er háttað. Í framhaldi af því langar mig til að spyrja hv. þingmann, af því að honum var tíðrætt um að norðurskautið ætti að vera lágspennusvæði og ég er sammála honum um að það væri mjög æskilegt ef svo væri, hverja hann telji bera meginábyrgð á því að við erum ekki að upplifa það sem lágspennusvæði í dag.