131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[19:03]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka enn og aftur hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir stuðning við hluta málsins. En mér heyrðist á henni í umræðunni fyrr að hún væri vonsvikin yfir því að mér hefðu orðið á mistök að telja ekki upp svikamál Framsóknarflokksins. Ég er að hugsa um að gleðja hana með því að bæta úr því.

Ég vil fyrst nefna 500 milljónirnar sem framsóknarmenn sviku öryrkjana um eftir að hafa skreytt sig með samningnum í dagblöðum rétt fyrir kosningar.

Í öðru lagi má segja að mikil svik hafi verið framin rétt fyrir jólin síðustu þegar sett voru á skólagjöld í ríkisreknum háskólum. Þau voru samþykkt nokkrum línum fyrir ofan þá samþykkt framsóknarmanna í stefnuskrá flokksins að tryggja það að stefna að afnámi leikskólagjalda. Það er líka samþykkt. Ég fagna því þá sérstaklega að hv. þingmaður skuli ætla að standa við þann hluta.

Síðan er annað mál sem bitnar á landsbyggðinni þar sem flokkurinn virðist enn hafa stuðning þó ótrúlegt megi virðast. Það er að svikin er sú samþykkt að tryggja útræðisrétt strandjarða. Það er alveg með ólíkindum að flokkurinn skuli samþykkja þetta æ ofan í æ og senda síðan marga stuðningsmenn flokksins í dómsali til að sækja rétt sinn og sækja samþykktir flokksins. Mér finnst þetta með ólíkindum. En kannski er þetta eðlilegt og kannski var það einmitt bara hluti af samþykktum flokksins að hækka raforkuna um helming á landsbyggðina. Ég veit það ekki. Það hefur þá farið fram hjá mér. Ef til vill hefur það verið hluti af samþykktum flokksins að auka ójöfnuð eins og hefur komið fram, staðfest af fjármálaráðherra. Flokkurinn hefur notað tíma sinn í valdastólum til að auka ójöfnuð. Þess vegna er einmitt kjörið tækifæri fyrir Framsóknarflokkinn að bæta úr og styðja þessa tillögu.

Ég tel að við eigum ekki að hengja okkur í það sem kom hér fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal um að börn eigi ekki að fara að heiman fyrr en þriggja ára. Mér finnst það mjög sérstakur málflutningur og það væri fróðlegt að fá það í umræðuna í þjóðfélaginu hvort einhverjir uppeldisfræðingar væru tilbúnir að styðja þetta eða taka undir eða færa einhver rök fyrir þessu. Ég átta mig ekki á því hvert menn eru að fara og mér finnst þessi umræða drepa málinu á dreif og vera, svona eins og maður segir, klikkuð, að börn eigi ekki að fara að heiman fyrr en þriggja ára.

Ég tel einmitt að það sé gott fyrir bæði börn og foreldra að börn fari að heiman í einhvern tíma. En ég get tekið undir þau sjónarmið sem hafa komið fram, m.a. hjá hv. þm. Jónínu Bjartmarz, að kannski er ekki rétt að börn séu langdvölum að heiman. En ég held að það geti einmitt verið af hinu góða að börn fari á þessu árabili, eins til þriggja ára, að heiman. Það væri þó fróðlegt innlegg í umræðu um uppeldismál að heyra eitthvað um það hvenær börn eigi að fara að heiman. Þetta er mjög þörf og fróðleg umræða.