135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:54]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram áhugaverð umræða um málefni Evrópu og tengsl okkar Íslendinga við þau. Þótt frumvarpið sem hér um ræðir sé ekki efnismikið eða leiði af sér stórkostlegar breytingar þá hafa umræðurnar verið mjög áhugaverðar og ljóst að stjórnarflokkarnir tala í austur og vestur í þeim efnum. Í raun er mjög áhugavert að fylgjast með samskiptum þessara flokka í þessum málum, eins og mörgum öðrum þar sem menn tala ýmist í austur eða vestur.

Þetta frumvarp snýst um að innleiða Evróputilskipun sem felur í sér að lög aðildarríkja um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins megi hvorki ganga lengra né skemur en ákvæði tilskipunarinnar. Þess vegna er umræðan mjög eðlileg, um hve mikið vald við höfum framselt með innleiðingu EES-samningsins þar sem enginn sveigjanleiki er fyrir okkur sem þjóð að ganga, hvorki skemur né lengra í þessum efnum. Því er eðlilegt að menn ræði almennt um EES-samninginn og aðild að Evrópusambandinu í því samhengi.

Ég fagna því sérstaklega að í þessari umræðu hafa hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar þingsins, lýst því yfir, rétt eins og aðrir þingmenn í umræðunni, að mikilvægt sé að efla aðkomu Alþingis að öllu þessu ferli. Reyndar hefur sú umræða gengið í nokkuð mörg ár í þinginu. En nú sýnist mér þverpólitískur stuðningur við að þingið verði eflt í aðkomu sinni að öllu þessu ferli.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi það sem hugsanlegan möguleika að fastanefndir þingsins færu með reglubundnum hætti til Brussel til þess að fylgjast með þróun mála þar. Það er ekkert minna mikilvægt að þingmenn á löggjafarþinginu fylgist líka með þróun mála á Evrópuþinginu og reyni að hafa áhrif á það ferli sem þar er í gangi. Vissulega snertir þetta íslenskt samfélag og þjóðfélagið allt enda gríðarlegur fjöldi af tilskipunum sem hrúgast inn á hv. Alþingi Íslendinga sem við afgreiðum sem lög frá Alþingi. Því er mikilvægt að við höfum aðgengi að málunum.

En þá veltir maður öðru fyrir sér, í ljósi þess nýja meiri hluta sem ríkir á þinginu. Ég var í EFTA-nefndinni á síðasta kjörtímabili. Þá voru hlutföllin á milli stjórnar- og stjórnarandstöðu nokkuð jöfn. Fimm manna nefnd, þrír frá stjórnarmeirihluta og tveir frá minni hlutanum. Nú búum við við það á Alþingi að þessi mikilvæga nefnd, sem fylgist með EES-samningnum og EFTA-samstarfinu, er þannig samansett að 80% hennar koma frá tveimur flokkum, sem eiga reyndar 68% fulltrúa hér á Alþingi Íslendinga. Þar er einungis einn frá stjórnarandstöðunni, fjórir fulltrúar stjórnarflokkanna en einn frá stjórnarandstöðunni.

Það eru þrír stjórnmálaflokkar í stjórnarandstöðu á Alþingi Íslendinga og það er eins með þá flokka og alla aðra flokka, að kjörnir fulltrúar þeirra þurfa að hafa aðkomu að þessu starfi. Það er skylda okkar að fylgjast með þróun mála í Evrópusambandinu. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á áðan þá höfum við hugsanlega tæki til að hafa enn meiri áhrif á ákvarðanatökuferlið sem við nýtum ekki í dag. Það er stefna Framsóknarflokksins að byggja á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Við þurfum að bæta hann, fara betur eftir honum og nýta þær heimildir og svigrúm sem þar er fyrir hendi.

Það er mikilvægt og nokkuð sögulegt að þingmenn allra flokka skuli leggja áherslu á að þingið verði styrkt verulega í að fylgjast með þróun mála. Framkvæmdarvaldið fylgist vel með þróun mála þarna úti. En á endanum snýst þetta um lagasetningu og því mikilvægt að fulltrúar á þjóðþinginu komi að ákvarðanatökunni og fylgist vel með hvað þau mál varðar.

En hér ræðum við um ágætt þingmál sem snertir neytendamál. Hæstv. ráðherra hefur komið mjög myndarlega inn í þá umræðu og hyggst beita sér í þeim málaflokki og bæta almennt hag og réttarstöðu neytenda. Vissulega er þetta, þótt lítið skref sé, í áttina. Þá er eðlilegt að við spyrjum hæstv. ráðherra: Hvað er á döfinni í málefnum neytenda? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra beita sér í að bæta almennt réttindi neytenda eins og hann hefur stefnt að og gefið til kynna? Það væri mikilvægt að fá það fram í umræðunni. Umræðan hefur verið mjög góð og ég sé að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur gefið merki, trúlega um andsvar.

En það var virkilega gaman að fylgjast með andsvari hans við ræðu hv. formanns utanríkismálanefndar Alþingis, Bjarna Benediktssonar. Það skilur ekkert að afstöðu vinstri grænna og sjálfstæðismanna í Evrópumálum. Það ætti það ekki að hindra að þeir flokkar geti einhvern tímann náð samstöðu, hvort sem það yrði á Alþingi eða í borgarstjórn Reykjavíkur.