138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:23]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa ágætu athugasemd. Það er alveg hárrétt hjá honum að það var ýmislegt hægt að gera. Það var hægt að auka inngreiðslukröfurnar. Það er líka alveg hárrétt hjá honum að það hefði örugglega dregið úr áhuganum á að ráðast í þetta ævintýri. En eftir á að hyggja var það ekki markmiðið sem við hefðum átt að sækjast eftir. Ég held að við sem þjóð, og við berum þar mörg ábyrgð, höfum vanmetið hættuna af þessari útlánastarfsemi í útlöndum. Það var auðvitað margt annað hægt að gera. Það var hægt t.d. að viðhalda bindiskyldu útibúanna en það var ekki gert. Seðlabankinn minnkaði bindiskyldu útibúanna í mars 2008. Auðvitað voru gerð margvísleg mistök í aðdraganda þessa. Eftir á að hyggja sjáum við að best hefði verið að skella á dúndrandi bindiskyldu á þessi útibú og setja á slíkar inngreiðslukröfur að menn hefðu hætt við þessa fjármögnunaraðferð. En það var söngur þess tíma að þetta væri skynsamleg leið til að fjármagna banka, en eftir á að hyggja er alveg ljóst að það var rangt.